Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 212
219
sem var í mótun við Faxaflóa en síðar í búskap norður í Mývatnssveit þar
sem henni gafst með tímanum svigrúm til ritstarfa. En þessi unga kona
var vakandi fyrir ytri sjónbaugum og því markaðist brautin einnig af heimi
styrjaldar og síðan kalda stríðsins með áframhaldandi vopnaskaki og gríð-
arlega misskiptum veraldargæðum, og jafnframt lá vegurinn með sínum
hætti um hugarheima skáldkonunnar sem í skrifum sínum byggði á félags-
legri samkennd en leitaði jafnframt nýrra leiða til að miðla sýn sinni á
veruleikann.
Í þeirri grein sem hér fer verður ekki fjallað um æviferil Jakobínu, en
nú þegar öld er liðin frá fæðingu þessa merka skálds er full ástæða til að
staldra við bækur hennar, sem urðu tíu talsins á 35 árum, endurlesa þær og
líta rannsakandi augum á nokkrar vörður í höfundarverkinu.4 Vera kann
að á merkisafmæli íslensks fullveldis reynist skáldkonan, jafnaldra þess,
einmitt markverður förunautur um svið og skeið gríðarlegra breytinga í
samfélaginu á liðinni öld. Það er engin goðgá að segja að ritverk Jakobínu
séu unnin úr heilli fylkingu andstæðna: togstreitu sögu og nútíma, sveitar
og borgar, karla og kvenna, hefðar og nýbreytni, raunsæis og módernisma,
rómantíkur og jarðbundinnar kaldhæðni, pólitíkur og skáldskapar, hug-
sjóna og félagslegs veruleika. Þessir átakafletir móta margháttaða samræðu
Jakobínu við samfélag sitt.
Klefinn og fólkið
Þáttur Jakobínu í formlegri nýbreytni í íslenskri sagnagerð einkennist
ekki síst af vendingu frá hefðbundinni sögumiðlun þar sem mikið veltur á
sögumanni er gerist traustur ferðafélagi lesandans. Þess í stað fær lesandi
iðulega aðgang að hugsunum persóna en einnig oft að samtölum sem eru
sjálf látin opinbera samhengi sitt – fremur en þau komi líkt og talmálsfyll-
ing inn í sagnaumgjörð. Eins og oft vill verða í módernískri sagnagerð ýtir
þetta aukinni ábyrgð yfir til lesenda – ýtir undir aukna þátttöku þeirra að
segja má, og það er auðvitað misjafnt hversu tilbúnir lesendur eru að verða
virkari í viðtökum. Er ekki bara hægt að fá söguna, takk? En á því geta
verið ýmis tormerki og þau eru raunar sum beinlínis til umræðu í fjórðu
4 Bækurnar tíu eru þessar, í tímaröð: Sagan af Snæbjörtu Eldsdóttur og Ketilríði
Kot ungsdóttur (ævintýri, 1959); Kvæði (ljóðabók, 1960); Púnktur á skökkum stað
(smá sögur, 1964); Dægurvísa. Saga úr Reykjavíkurlífinu (skáldsaga, 1965); Snaran
(skáldsaga,1968); Sjö vindur gráar (smásögur, 1970); Lifandi vatnið – – – (skáldsaga,
1974); Í sama klefa (skáldsaga, 1981); Vegurinn upp á fjallið (smásögur, 1990); Í
barndómi, (sjálfsævisaga/bernskuminningar, 1994).
JaKOBÍnUVEGIR