Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 192
198
um, eins og raunar samtíð hans var, en hann er aldrei væminn í rómantík
sinni. Það mætti ef til vill kalla hann raunsæjan rómantíkus.“42 Hér notar
Valtýr ‘rómantík’ um tilfinningaríka tjáningu, fremur en vísun í listastefn
ur. „Raunsæi“ á hér ekki við birtingu á stéttaveruleika, heldur sem samheiti
natúralisma. Þórarinn er því, samkvæmt Valtý, að vinna í samræmi við
aðra samtíðarmenn sína, af tjáningarríkri tilfinningu í ætt við symbólisma,
móderníska, en með meiri skírskotun í natúralisma en flestir.
Hjörleifur Sigurðsson skrifaði einnig um sýninguna fyrir síðdegisblaðið
Vísi. Þar kemur skýrt fram að sýningin opnaði augu hans fyrir Þórarni og
list hans. Hann dáist að Þórarni sem frumkvöðli og gengur svo langt að
halda því fram að Þórarinn spanni einn „yfir tímabil, sem fjöldi málara gerir
með öðrum þjóðum […] hann er tengiliður okkar við fortíðina“.43 Það er
á Hjörleifi að skilja að honum þyki myndlist Þórarins að einhverju leyti ná
að spanna tímabil fyrri alda listasögunnar þótt honum þyki hún þó vissu
lega tengd myndlist tuttugustu aldar. Hann líkir honum við franska mál
arann Chardin, sem „meistara lítilla málverka“44, en Chardin var einmitt
talinn vera frumkvöðull í realístískum áherslum á tímum rokókólistar og
léttúðugrar tjáningar.45 Þessi samlíking felur að vissu leyti í sér áherslu sem
tengir Þórarin við avantgarde hugmyndir, sem sjálfstæðan listamann sem
er óafvitandi hafinn yfir pólítískan vettvang listar á sínum samtíma.
Hinn þýski Kurt Zier, þáverandi skólastjóri Myndlista og handíðaskóla
Íslands og sjálfur natúralískur teiknari, skrifar athyglisverða grein um sýn
inguna árið 1967 í Birting. Hann sér list Þórarins í öðru ljósi en Valtýr og
Hjörleifur. Í upphafi gagnrýnir hann Þórarin fyrir íhaldssemi í litanotkun,
fyrir það að tóna alla liti niður með svörtu og að nota ætíð ‘eðlilega’ liti
til að túlka náttúruleg form. „Afstaða hans til náttúrunnar er að hálfu leyti
klassísk, að hálfu leyti rómantísk […] sköpuð í guðlegri ‘harmonia’.“46
42 Valtýr Pétursson, „Þórarinn B. Þorláksson – 100 ára“, Morgunblaðið, 22. febrúar
1967, bls. 17.
43 Hjörleifur Sigurðsson, „Meistari lítilla málverka: Aldarafmæli Þórarins B. Þorláks
sonar – Sýning í Listasafni Íslands“, Vísir, 14. febrúar 1967, bls. 5.
44 Sami staður.
45 Þessi skoðun, á Chardin sem einhverskonar tilfallandi forvera avantgarde hugs
unar, kom þegar fram þegar hann var hafinn upp sem andstæða við rókókólistina
á meðan hann enn lifði. Sjá t.d.: Michael Fried, Absorption and theatricality: Painting
and beholder in the age of Diderot, Chicago: University of Chicago Press, 1988, bls.
53–54.
46 Kurt Zier, „Hversu óheppilegt það er að hafa engan málara“, Birtingur 13: 4/1967,
bls. 37–43, hér bls. 42.
Hlynur Helgason