Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 124
127
STRÍð GEGN KONUM
fylgja lögum og rannsaka brot þeirra. Enda þótt pottur kunni víða að vera
brotinn eru helstu skilaboð glæpasögunnar þau að nútímalegt gangvirki
réttlætisins virki skammlaust. Glæpasagan sviðsetur að vísu kringumstæð-
ur þar sem stofnanir sem formlega eru tileinkaðar eftirfylgni réttlætis þurfa
á aðstoð að halda – þá gjarnan blaðamanna, lögfræðinga, einkaspæjara eða
utangarðsmanna – en jafnvel í slíkum tilvikum hafa hinir óformlegu íhlut-
unaraðilar tileinkað sér þau grundvallarsjónarmið er liggja réttarríkinu til
grundvallar.
Í Kötu eru öll þessi viðhorf og grundvallarsjónarmið dregin í efa og
þeim raunar varpað fyrir róða. Hvað þetta varðar tengist skáldsagan undir-
grein glæpasögunnar um hefnandann (e. vigilante narrative), einstakling
sem gengur lengra en (óformlegi) rannsóknaraðilinn jafnan gerir. Ekki er
nóg með að glæpamaðurinn sé afhjúpaður heldur er honum einnig refsað.
Lisbeth Salander í skáldsögum Stiegs Larsson er dæmi um þessa persónu-
gerð, en sjálf tilvist hennar felur í sér gagnrýni á opinbera meðferð glæpa-
mála og vanmátt dómkerfisins til að endurspegla í framkvæmd ríkjandi
gildi samfélagsins.5 En Kata tekur einnig skref út fyrir hefðbundinn ramma
hefnendasögunnar, og tengist það femínískri áherslu bókarinnar.6 Raunar
kynni að vera nær lagi að segja að aflvaki þeirrar róttæku samfélagsgagn-
rýni sem greina má í frásögninni felist í tortryggni í garð réttlætishugsjón-
anna sjálfra, ekki aðeins gallaðrar útfærslu þeirra. Þetta birtist einna skýr-
ast í gjörðum söguhetjunnar Kötu í síðari hluta verksins og þeim rökum
sem færð eru fyrir blóðhefnd utan dóms og laga. Ennfremur birtist það í
þeirri niðurstöðu bókarinnar að þótt blóðhefndin hafi verið innt af hendi
sé réttlætinu hvergi nærri fullnægt, því líkt og afhjúpun glæpsins í glæpa-
sögu færir jafnan í samt horf þann misbrest er áhugi sögunnar beinist að
felur aftaka glæpamannsins í hefnendasögu oftast í sér þá hugmynd að
réttlætið hafi náð fram að ganga – og því sé óhætt að ljúka sögunni. Þessu
er öðruvísi farið í Kötu þar sem endalokin fela í sér nýtt upphaf og ákall í
nafni réttlætis eftir því að vestrænni samfélagsgerð sé kollvarpað.
5 Sjá hér Peter Robson, „Vengeance in Popular Culture“, Oxford Research Encyclopedia
of Criminology, Oxfordre.com, desember 2016, sótt 30. mars 2018 af http://crimi-
nology.oxfordre.com/view/10.1093/acrefore/9780190264079.001.0001/acrefore-
9780190264079-e-45.
6 Rétt er að minnast hér á ritdóm Soffíu Auðar Birgisdóttur um skáldsögu Stein-
ars Braga, „Kynferðislegt ofbeldi: krabbamein á þjóðarlíkama“, Tímarit Máls og
menningar, 4/2015, bls. 132-136. Þótt niðurstöður okkar séu um margt ólíkar og
nálgun á skáldverkið sömuleiðis færir Soffía afbragðsvel í orð spurningarnar sem
Kata vekur og brugðist er við í þessari grein.