Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 117
119
Viðleitnin til að leiðrétta það misræmi að gleðimaður sé jákvætt heiti en
gleðikona neikvætt er, eins og að framan var lýst, komin frá konum sem vilja
nota orðið gleðikona um sjálfar sig í merkingunni ‘fjörug kona, kona gefin
fyrir gleðskap’. Þetta er ekki framtak kvenna sem vilja sýna vændiskonum
stuðning með því að kalla sig gleðikonur. Það er þannig til dæmis ólíkt
því að beita vígorðinu „Ég er drusla!“ til að styðja konur sem hafa verið
kallaðar druslur og draga broddinn úr því skammaryrði. Þarna er auðvit-
að ekki heldur um að ræða hreyfingu vændiskvenna sem kjósa heldur að
vera kallaðar gleðikonur en einhverjum öðrum nöfnum og vilja nota þetta
orð til að efla samstöðu í sínum hópi. Þótt slíkt sé þekkt úr kvennabar-
áttu erlendis snýst vilji íslenskra kvenna til að hafa áhrif á notkun orðsins
gleðikona ekki um hag vændiskvenna eða óskir þeirra.86
Skrauthvörf og „ljótleiki“
Því er ekki að neita að gleði-orð hafa tengst viðkvæmu merkingarsviði, þ.e.
lauslæti og vændi, en á slíkum sviðum má búast við gildishlöðnu orðfæri og
orðum sem vekja óþægilegar tilfinningar. Ýmist getur form orða þótt óvið-
eigandi, t.d. ef um erlendar slettur og slangur er að ræða, eða merkingar-
mið orðanna, þ.e. það sem þau eiga við, vakið sterk viðbrögð. Í umfjöllun
um orðanotkun tengda samkynhneigð notaði Þóra Björk Hjartardóttir
einfalt flokkunarkerfi til að greina svokallaðan „ljótleika“ orða, þar sem
orðum er skipt í fjóra flokka.87 Orðin í fyrsta flokknum eru hlutlaus bæði
að formi og innihaldi. Í öðrum flokki telst form orðanna ljótt en merk-
ingarmiðið hlutlaust. Meðal dæma um muninn á þessum flokkum eru
orðin fönguleg stúlka í fyrsta flokki og megabeib í öðrum flokki. Ljótleikinn
í þessu orðapari felst aðeins í því að megabeib er erlent slanguryrði. Þriðji
og fjórði flokkur ná yfir orðfæri á ýmsum viðkvæmum sviðum sem viss
bannhelgi á við, m.a. orð tengd kynlífi, og þar má finna vændisorð. Í þriðja
flokki eru orð með hlutlaust form en ljótt merkingarmið en í fjórða flokki
kallast bæði form og merkingarmið ljót. Eitt dæma Þóru um þessa flokka
86 Til samanburðar má nefna að sums staðar í þýsku kvennahreyfingunni hefur orðið
Nutte ‘hóra’ verið „reclaimed and used to mark a sense of strength and solidarity
among prostitutes“ og orðið Nuttenbewegung verið notað um hreyfingu vænd-
iskvenna. Anne Pauwels, Women Changing Language, bls. 102.
87 Þóra Björk Hjartardóttir, „Baráttan um orðin: Orðanotkun tengd samkynhneigð“,
Íslenskt mál og almenn málfræði 26/2004, bls. 83–122, hér einkum bls. 86–89. Flokk-
unin er byggð á Lars-Gunnar Andersson, Fult språk: Svordomar, dialekter och annat
ont, Stockholm: Carlssons, 1985, bls. 47–49.
GLEðiMEnn, GLEðiMEYJAR OG GLEðiKVEnnAFÉLAG VALLAHREPPS