Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 171
176
ærið velkomnir í vestrænum lestrarstólum, hvar sumir eru enn að melta og
glíma við skáldsögu sem fjallar um þá ógurlegu sálarkvöl sem þjakar hinn
vestræna hvíta miðaldra karlmann vegna þess að honum hefur enn ekki
tekist að nauðga stúlkubarninu sem hann er svo ástfanginn af.
Tabú eru til að fást við og rithöfundar hafa löngum dregist að þeim.
Tabú eru tabú vegna þess að þau eru bæði full af sársauka og geta valdið
sársauka. Í dag finnst okkur stundum eins og engin tabú séu lengur til, til-
finningin er sú að öll viðkvæmustu mál plánetunnar hafi þegar verið tækluð
á prenti. Það er auðvitað blekking. Það verður aldrei skortur á tabúum.
Eins og áður sagði höfðu ritstörfin kennt mér að leita „lífsháskans“ og
láta persónur mínar upplifa sársauka: Smám saman lærði ég að senda þær
niður til heljar. En ég var alltaf að skrifa um skáldaðar persónur, alltaf að
fjalla um sársauka annars fólks. Ég skrifaði aldrei um mitt eigið líf, vann
aldrei beint úr eigin reynslu. Þegar ég hinsvegar skrifaði loks mína fyrstu
sjálfsævisögulegu bók (Sjóveikur í München, sem lýsir einum vetri í lífi
mínu 1981-82) var ég orðinn svo vanur því að leita „lífsháskans“ í lífi ann-
arra og fylgja uppdiktuðum karakterum til helvítis að fyrr en varði hafði ég
dröslað aðalpersónunni, Ungum manni, niður til heljar; persónu sem að
þessu sinni var ég sjálfur.
Aðferðin hjálpaði mér þannig við að grafa niður í mína eigin for-
tíð og hér fann ég það sem má með sanni kalla „lífsháska“. Ég hafði þá
kynnst honum, þrátt fyrir allt. Unglingslegt óþol gagnvart gömlu Mokka-
meisturunum hafði einungis blindað mér sýn. Ég kom ekki auga á minn
eigin háska. Það tók mig þrjátíu ár að horfast í augu við hann og opinbera
þá staðreynd að ungum hafði mér verið nauðgað af ókunnum manni í
ítalskri stórborg. Það tók mig þetta langan tíma að geta talað um það,
skrifað um það. Ég hafði falið það svo djúpt í sál minni að það þurfti
reyndan höfund til að grafa niður á það. Rithöfundurinn í mér sagði: Þar
sem ÉG er að skrifa um versta vetur ævi ÞINNAR neyðist ég til að taka
fyrir versta atburð hans, hann verður ekki undanskilinn.
Þannig kom það til að ég skrifaði um þessa reynslu mína í skáldsögunni
Sjóveikur í München sem kom út hjá JPV haustið 2015. Ég velti því stundum
fyrir mér hvort ég hefði gert það ef ekki hefðu opnast hinir óþekktu akrar
sársaukans og ég minntist áður á. Hérlendis höfðu líka svo margar hurðir
opnast á undanförnum árum, frá Free the Nipple til Druslugöngunnar, og
eru enn að opnast, nú síðast: #HöfumHátt og #metoo. Kannski hefði ég
samt sem áður látið vaða, en kannski ekki. Ætli ég geti þó ekki sagt að með
Hallgrímur Helgason