Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 113
115
sem hér hefur verið fjallað um, að því leyti að þau hafa ekki eingöngu verið
notuð um fólk. Eins og glöggt má sjá á færslum í Ritmálssafni hafa þau
einnig átt við ýmislegt annað sem veitir eða spillir gleði. Sem dæmi má
nefna að orðið gleðigjafi hefur verið notað um kynni, brennivín og dvöl í
Kaupmannahöfn og líka vísað til setninga, t.d. „að sumir samvistarmenn
hans námu hjá honum hljóðfæraleik“, þannig að ‘það sem veitir gleði’ ætti
í raun að bæta við merkingarskýringuna.74
Samantekt um gleði-orðin
Af hinu langa gleði-orðatali hér að framan má ráða að talsvert líf hefur verið
í myndun samsettra orða með gleði- sem fyrri lið. Allmörg ný orð, umfram
orðin gleðimaður og gleðikona, birtast í heimildum frá byrjun 20. aldar og
fram eftir öldinni. Mörg dæmanna lýsa erlendu fólki, oft í þýddum textum,
og vera kann að í sumum tilvikum hafi höfundar talið sig þurfa á nýyrðum
að halda um fólk sem átti ekki beina hliðstæðu í íslenskum samtíma, t.d.
gleðimeyjarnar í Kóraninum og grískum og rómverskum leikritum. Til
greina kemur að sum séu tökuþýðingar, a.m.k. orðin um konurnar, af því
að sambærileg orð voru til í nágrannamálum. Þó er hér talið ívið líklegra
að það kvennaorð sem elstar heimildir eru um, gleðikona, hafi ekki orðið
til við þýðingu heldur sé alíslensk smíð, nýyrði um kvenkyns gleðimann.
Merkinguna ‘vændiskona’ hafi það fengið síðar að láni úr erlendum gleði-
orðaforða.
Einnig vekur athygli að títtnefnt ósamræmi í merkingu orðanna gleði-
maður og gleðikona er ekki jafnskýrt þegar litið er á sögu orðanna og gleði-
orðasafnið í heild. Eins og sýnt var hér að framan hafa orðin um konur
ekki eingöngu haft neikvæða merkingu. Konur hafa verið kallaðar gleði-
menn, gleðikonur, gleðimenni og gleðimanneskjur í merkingunni ‘kvenkyns
gleðimenn’, án þess að það sé niðrandi og án vændismerkingar. notkun
orðanna um karlmenn lýsir ekki heldur alltaf jákvæðu viðhorfi. Þótt oft
sé talið karlmanni til hróss að vera gleðimaður eru einnig til dæmi um hið
gagnstæða. Þó hefur orðið gleðimaður ekki fengið skýra niðrandi merkingu.
Ekki hafa fundist dæmi um að það orð hafi verið notað í vændismerkingu
og erlenda fyrirmynd að því, gleði-orð um vændiskarl, hefur líklega skort.
Hins vegar hafa orðin gleðikarl og gleðigaur bæði haft léttúðar- og vænd-
ismerkingu.
74 Óskar Aðalsteinn, Úr dagbók vitavarðar, Reykjavík: iðunn, 1968, bls. 101; sjá einnig
undir orðinu gleðigjafi í Ritmálssafni (http://lexis.hi.is).
GLEðiMEnn, GLEðiMEYJAR OG GLEðiKVEnnAFÉLAG VALLAHREPPS