Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 98
100
til Kjøn“ og „Mand, Mandsperson, mods. kona“.14 Hin almenna, ókyn-
bundna merking orðsins er raunar talin fyrst í orðabók Fritzners og sýnd
með dæmum, og fjölda slíkra dæma má sjá í orðabók Árnanefndar.15 Orðið
maðr var nefnilega og er eitt margra karlkynsorða um fólk og aðrar lifandi
verur sem hafa gegnt tvenns konar merkingarhlutverki. Þau hafa annars
vegar verið ókynbundin, t.d. vinur í merkingunni ‘kær félagi’ í setningunni
Jón og Gunna eru vinir, og hins vegar verið bundin við karlkyns verur, t.d.
orðið vinur í merkingunni ‘karlkyns vinur, kærasti’ (Jón er vinur Gunnu
andspænis Gunna er vinkona Jóns).16
Fornmálsdæmin um orðið gleðimaðr sýna skýrt að það hefur verið í
hópi fjölmargra nafnorða með síðari liðinn -maðr sem hafa verið notuð
um bæði kynin. Ekki þarf að leita langt að hliðstæðum því að í brotinu úr
Ljósvetninga sögu er Friðgerður einnig kölluð verkmaðr og umsýslumaðr
(sjá (3)c.). Í seinni tíð er talað um að kona sé leikmaður íþróttaliðs, mik-
ill námsmaður, góður ökumaður og þess háttar, og nærtækt er að benda á
að konur bera mörg starfsheiti sem enda á -maður (blaðamaður, lögmaður,
þingmaður o.s.frv.). Segja má að orð sem lýsa geðslagi væru enn sambæri-
legri við orðið gleðimaður en áðurnefnd orð, t.d. ákafamaður, fjörmaður,
hæglætismaður og rólyndismaður. Við þessi greinarskrif voru ekki tök á að
leita skipulega að dæmum um slík orð, en ljóst er að a.m.k. sum þeirra hafa
verið notuð um konur. Í Ólafs sögu helga var ingibjörg Tryggvadóttir t.d.
sögð aftakamaðr mikill (í öðru handriti ákafamaðr mikill). Fleirtölumyndir
orða með -maður hafa auk þess átt við kynjablandaða hópa. Til dæmis var
sagt um afkomendur Hákonar jarls í Heimskringlu að öll sú ætt hafi verið
„miklu fríðari en annat mannfólk, ok flest atgǫrvimenn miklir“. Á öllum
tímabilum íslenskrar málsögu hafa einnig verið til orð með síðari liðinn
-kona við hlið orða með -maður; t.d. eru dæmi frá 13. öld og síðar um orðin
fǫrumaðr og fǫrukona.17
14 Johan Fritzner, Ordbog over Det gamle norske Sprog, Andet Bind, 1891, bls. 617–
618.
15 Ordbog over det norrøne prosasprog, sótt 24. september 2018 af http://onp.ku.dk.
16 Hin kynhlutlausa notkun karlkyns er talin skýrast af því að karlkyn tók við hlut-
verki samkyns þegar þriggja kynja kerfi indóevrópsku málaættarinnar varð til. Hún
er m.ö.o. leif frá málstigi sem gerði ekki málfræðilegan greinarmun á karlkyni og
kvenkyni. Sjá Guðrúnu Þórhallsdóttur, „Karlkyn eða hvorugkyn? Íslensk málhefð,
femínísk málstýring og verkefni þýðingarnefndar“, Glíman 5/2008, bls. 103–134,
hér bls. 107–108.
17 Sbr. fletturnar aftakamaðr, ákafamaðr, atgervimaðr, fǫrumaðr og fǫrukona í Ordbog
over det norrøne prosasprog, sótt 28. september 2018 af http://onp.ku.dk.
Guðrún Þórhallsdóttir