Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 141
144
sambandi að konur nemi vígaíþróttir til að vera þess færar að berja frá sér.
Nú hefur ýmsum þótt þessi lokahnykkur verksins einn helsti veikleiki þess
og fyrir slíkri gagnrýni eru ágætar ástæður. Hins vegar er umhugsunarvert
að Brownmiller er þarna að tala inn í samhengi meðvitaðrar andspyrnu
gegn ofbeldisverkum karla, en umræða um slíkt tók að gera vart við sig á
tímabilinu. „Það voru ýmis merki á lofti“, segir Elaine Showalter, „um að
femínistar væru við það að grípa til ofbeldis til að hefna fyrir hrottaskap
karla í garð kvenna“.42 Showalter nefnir í framhaldinu Rauðu nornirnar
á Ítalíu, sem kveiktu í bílum og skutu nauðgara, og samtökin SCUM (e.
Society For Cutting Up Men) í Bandaríkjunum, en stofnandi þeirra, Valerie
Solanis, var jafnframt eini félaginn.
Forvitnilegast er þó annað framtak sem Showalter greinir frá. Sumarið
1971 var haft samband símleiðis við tiltekna femínista í New York og
nágrenni og þeir boðaðir á leynifund þar sem ræða átti ofbeldi sem mögu-
lega hertækni í kvenréttindabaráttunni, og úr varð „Ofbeldisfundurinn“
svokallaði. Flutt voru erindi og síðar rætt um hvort konur ættu grípa til
vopna og hefjast handa við þjálfun til að undirbúa stríðsátök.43 Fallið var
frá þeirri hugmynd á fundinum en ári síðar gerði Susan Sontag hræringar
í kvenréttindum að umfjöllunarefni í grein þar sem möguleg viðbrögð
eru jafnframt rædd. Þar mælir hún með „öfgasamtökum“ kvenna, „öfga“ í
þeim skilningi að herskáum hópum beri nauðsyn til að hrista af sér hefð-
bundnar hugmyndir um kvenleika: „Algeng aðferð við að tryggja pólitíska
óvirkni kvenna er að halda því fram að konur nái frekar árangri og hafi
meiri áhrif ef þær koma „virðulega“ fram, ef þær ofbjóða ekki siðareglum,
eru ennþá sjarmerandi.“44 Sontag telur hreyfingu er beygir sig undir þessi
viðhorf dæmda til að mistakast. Þegar gjörðir þeirra eru úthrópaðar sem
„öfgakenndar“ og „óröklegar“ geta „herskáar konur verið þess fullvissar að
þær séu á réttri leið“.45 Hugmyndir Sontag eiga sér samhljóm í yfirlýsingu
hóps hér á landi er kallaði sig „Kolbrjálaðar kuntur“ og send var inn á fem-
iníska vefsvæðið knuz.is og birt þar árið 2013:
42 Elaine Showalter, „Rethinking the Seventies: Women Writers and Violence“, The
Antioch Review, 2/1981, bls. 156–170, hér bls. 165.
43 Í grein sinni „Heimatilbúið réttarkerfi“ nefnir Einar Kári Jóhannsson að spurningin
„hvort réttlætanlegt sé að beita ofbeldi í baráttunni við feðraveldi sem markvisst
kúgar konur“ hafi verið undirliggjandi í róttækum menningarafurðum sem voru í
samræðu við annarrar bylgju femínísma (bls. 144).
44 Susan Sontag, „The Third World of Women“, Susan Sontag: Essays of the 1960s &
70s, ritstj. David Rieff, New York: The Library of America, 2013, bls. 788.
45 Sama heimild, bls. 789.
Björn Þór Vilhjálmsson