Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 131
134
Í þessu ljósi er forvitnilegt að á Íslandi var fyrsta konan, Guðrún
Erlendsdóttir, skipuð í Hæstarétt árið 1986 og sú næsta árið 2001, þremur
árum áður en Guðrún lét af störfum, en það var Ingibjörg Benediktsdóttir.
Á starfstíma sínum í Hæstarétti varð Ingibjörg m.a. þekkt fyrir tíð sér-
atkvæði sín í sýknudómum í nauðgunarmálum, svo mjög reyndar að árið
2013 birtist um hana grein eftir Fanneyju Birnu Jónsdóttur í dagblaði
undir yfirskriftinni „Eini kvendómarinn skilar enn og aftur séráliti“.14
Tilefni fréttarinnar er að Ingibjörg hafði í þriðja sinn sama árið skilað ein
inn sérákvæði í máli þar sem sakfellingu fyrir nauðgun í héraði var snúið
við í Hæstarétti. Má hér geta að frátöldum þeim dómurum sem um þessar
mundir sitja í Hæstarétti hafa 39 karlar gegnt embættinu en þrjár konur.
Þegar þessi orð eru rituð sitja samkvæmt upplýsingum á vef dómstólsins
sjö karlar í Hæstarétti og ein kona.15
Dómskerfið er kúgandi stjórntæki, eitt af fáum sem þegnar frjálslyndra
vestrænna lýðræðisþjóðfélaga samþykkja að mestu umorðalaust, og ástæð-
an er að hluta til sú að dómskerfinu til grundvallar liggur sá samfélagssátt-
máli að það endurspegli gildin sem eru í hávegum höfð í landinu. Virkni
kúgandi stjórntækja felst auðvitað ekki aðeins í getu þeirra til að refsa
heldur einnig – og ekki síður – í ákvörðuninni um hvenær ástæðulaust telj-
ist að beita valdi. Sú hugmynd að dómstólar starfi í bága við réttarvitund
almennings þegar að jafn alvarlegum og víðtækum málaflokki og þessum
kemur vekur auðvitað óhug, auk spurninga. Enn meiri óhug vekur þó sú
tilgáta að svo sé ekki, þ.e.a.s. að meðferð réttarkerfisins á kynferðisbrotum
endurspegli í raun ríkjandi samfélagsgildi, í staðinn fyrir að vera gölluð
útfærsla þeirra. Í öllu falli blasir við að í samfélagi þar sem aldrei væri
opinberlega viðurkennt að ofbeldi gegn konum sé umborið er það í raun
umborið hjá stofnunum sem standa eiga vörð um réttlætishugsjónir, og svo
14 Fanney Birna Jónsdóttir, „Eini kvendómarinn skilar enn og aftur séráliti“, Visir.is,
24. október 2013, sótt 3. mars 2018 af http://www.visir.is/g/2013131029342.
15 Árið 2015 gerði Ingveldur Einarsdóttir, sem skömmu fyrr var starfandi Hæsta-
réttardómari, formlega athugasemd við innanríkisráðuneytið varðandi niðurstöður
hæfnisnefndar vegna umsóknar sinnar um fasta skipun við réttinn, en hún taldi
nefndina brjóta jafnréttislög. Nefndina skipuðu fimm karlar og mat nefndin karl
hæfastan, Karl Axelsson, sem síðan hlaut starfið. Ári fyrr hafði Mannréttindastofn-
un Sameinuðu þjóðanna sent frá sér skýrslu þar sem bent var á að „nauðsynlegt væri
að auka þekkingu og skilning innan íslenska dómskerfisins á málefnum kynjanna“.
Snærós Sindradóttir, „Fyrrverandi hæstaréttardómari telur dómnefnd andstæða
jafnréttislögum“, Visir.is, 25. september 2015, sótt 3. mars 2018 af http://www.
visir.is/g/2015150929245.
Björn Þór Vilhjálmsson