Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 130
133
Nú mætti benda á að ofbeldi karla í garð kvenna sé ólögmætt nema í
undantekningartilvikum – frelsisskerðingu í formi fangelsisvistar má nefna
hér, sem og dauðarefsingu í sumum löndum, og framkvæmdin sé þá í
höndum lögmætra valdhafa – og það er rétt, að nafninu til er um refsivert
athæfi að ræða og stundum er jafnvel refsað fyrir það. Furðu sjaldan samt,
svo sjaldan raunar að það sætir undrun, og á það einkum við um glæpi á
borð við kynferðisofbeldi. Sé litið í bókina sem Kata les eftir Þórdísi Elvu,
Á mannamáli, má sjá tölfræði sem gefur til kynna að við búum í samfélagi
sem á borði samþykkir nauðganir karla á konum, þótt í orði varði þær við
lög. Lágt hlutfall nauðgana er kært til yfirvalda en í þeim tilvikum sem
um slíkt er að ræða er kæran langoftast látin niður falla. Þegar málið er
ekki látið niður falla eru ekki nema helmingslíkur á sakfellingu og þegar
sakfelling á sér stað er henni gjarnan snúið við eftir áfrýjun, sum ár er það
reyndar meirihluti sakfellinga sem hæstiréttur ógildir.11 Niðurstaðan er
að fæstar nauðganir eru kærðar og aðeins refsað fyrir lítið brot þeirra sem
þó komast til lögreglu. Viðlíka málsmeðferð finnst ekki í öðrum flokkum
afbrota.
Í marsmánuði 2017, átta árum eftir útkomu bókar Þórdísar og þrem-
ur eftir skáldsögu Steinars Braga, kom Guðrún Jónsdóttir, talskona
Stígamóta, fram í fjölmiðlum til að vekja athygli á ársskýrslu samtak-
anna fyrir 2016 og því sem hún nefndi „nauðganafaraldur“ og sagði enn-
fremur að hún teldi að „alvarleg nauðgunarmenning“ ríkti á Íslandi.12
Tilkynntum nauðgunum til Stígamóta hafði fjölgað ískyggilega frá
árinu áður. Fram kemur í skýrslu Stígamóta ári síðar að tíðni nauðgana
hafði enn aukist verulega.13 Í ljósi gífurlegs fjölda nauðgana hér á landi
má draga tvær ályktanir. Annað hvort ganga þúsundir kvenna um götur
ranglega sannfærðar um að þeim hafi verið nauðgað eða þær hafa rétt
fyrir sér, án þess þó að við því hafi verið brugðist með viðunandi hætti
í dómskerfinu. Seinni kosturinn, sem og lagaleg umgjörð málaflokksins,
leiðir hugann að þeirri staðreynd að valdastofnanir samfélagsins virðast
telja ástandið ásættanlegt.
11 Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, Á mannamáli: Brotin, dómarnir, aðgerðirnar og umræðan,
Reykjavík: JPV útgáfa, 2009, bls. 121–131.
12 Lára Ómarsdóttir, „Hér ríkir alvarleg nauðgunarmenning“, Ruv.is, 30. mars 2017,
sótt 25. febrúar 2018 af http://www.ruv.is/frett/her-rikir-alvarleg-naudgunarmen-
ning.
13 Guðrún Jónsdóttir og Anna Þóra Kristinsdóttir, Stígamót 2017. Ársskýrsla, Stiga-
mot.is, sótt 23. janúar 2018 af https://www.stigamot.is/static/files/arsskyrsla2017.
pdf.
STRÍð GEGN KONUM