Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 161
165
Yfir þennan tíma sem nauðgunin tók skellti hann mér í hvað sem
honum sýndist og kom fram við mig eins og dauðan hlut eða kyn-
lífsdúkku.
Hlutgerving getur einnig tengst öðrum samfélagslegum skýringum, t.d.
þannig að ef konur eru hlutir þá hafi karlar eignarhald yfir þeim og megi
koma fram við þær eins og þeir vilja. Samfélagsskýringarnar sem koma
fram í færslum þolenda eru blandaðar, en lýsa að mestu leyti því hvernig
þolendur lesa í hegðun gerenda og í samfélagið sjálft. Þær lýsingar og
skýringar sem koma hér fram geta endurspeglað hvaða áhrif samfélagsleg
viðhorf hafa á ofbeldi.
Skýringar sem snúa að þolendum
Skýringar á ofbeldi sem snúa að þolanda þess hafa verið rannsakaðar, bæði
frá sjónarhóli þolenda og gerenda.44 Hér verður fjallað um tvær slíkar skýr-
ingar, viðnám brotaþola og áfengisneyslu hans. Fyrri rannsóknir sýna að
gerendur, samfélagið og jafnvel réttarkerfið búist við því að sá sem verður
fyrir kynferðisofbeldi veiti ákveðið viðnám til þess að fullyrða megi að um
ofbeldi hafi verið að ræða (en ekki kynlíf með samþykki beggja). Gerendur
hafa réttlætt ofbeldi með því að þolandinn hafi ekki sagt nei, hafi ekki sagt
nei nógu skýrt eða jafnvel ekki barist nógu mikið um til þess að stöðva
verknaðinn.45 Viðnámið virðist líka gegna lykilhlutverki í upplifun þolend-
anna sjálfra, oft kenna þeir sjálfum sér um ef þeir veittu ekki viðnám, en ef
þeir börðust og ofbeldi átti sér samt sem áður stað kenna þeir gjarnan sam-
félaginu um nauðgunina.46 Í færslunum sem skoðaðar voru fjalla þolendur
m.a. um viðbrögð sín og viðnám í aðstæðunum til að útskýra ofbeldið:
Þegar mér var nauðgað sagði ég ekki orðið 'nei', heldur bað hann
um að hætta og sagðist langa að fara heim en hann hætti ekki og ég
fraus. Mér leið eins og ég ætti ekki skilið neina hjálp eftir á vegna
þess að ég barðist ekki nógu vel á móti honum. En ég veit í dag að
það er ekki rétt.
44 Sapanda D. Donde, „College women’s attributions of blame for experiences of
sexual assault“, bls. 3520–3538; Tracy N. Hipp o.fl., „Justifying sexual assault:
Anonymous perpetrators speak out online“, bls. 82–90.
45 Sama heimild, bls. 85-86; Carin Perilloux, Joshua D. Duntley og David M. Buss,
„Blame attribution in sexual victimization“, bls. 81–86.
46 Sapanda D. Donde, „College women’s attributions of blame for experiences of
sexual assault“, bls. 3531–2.
„ÞÚ VEIST ÞÚ VILT ÞAð“