Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 52
53
„Þrjú fóru þau í steinþró saman“ er algeng formúla í niðurlagi kvæða.
Á undan hafa elskendurnir báðir látið lífið, og með þeim er þá annaðhvort
barn þeirra eða móðir annars hvors.
Ástarorð og umræða um ást er ekki áberandi og ástin er yfirleitt ekki
færð í orð. Birtingarmyndir ástarinnar – eða girndarinnar – eru helst þær
að konur eru kallaðar „sæta mín“21 eða „kæra mín“, og útlitslýsingar á
konum jafnt sem körlum gefa tilfinningar í skyn. Karlar eru vænir eða öðl-
ingar og hafa gula lokka, konur eru fagrar sem liljur. Í harmrænum kvæð-
um sem lyktar oft með dauða annars elskandans, birtist ástin á þann hátt
að það þeirra sem eftir lifir springur af harmi eða fellur fyrir eigin hendi.
Tilfinningar eru því fremur túlkaðar með gerðum fólks og líkamlegum
viðbrögðum en orðum. Í þessu samhengi má benda á umfjöllun Sifjar
Ríkharðsdóttur um tilfinningalega forskrift innan norrænna miðalda-
bókmennta. Þar ræðir hún meðal annars Íslendingasögur og frumsamdar
riddarasögur, auk þess sem hún rannsakar mun á frumtexta og þýðingum
riddarasagna. Rannsóknin nær því ekki til sagnadansa en samt sem áður
eiga hugmyndir hennar vel við hér. Ákveðin tilfinningaleg forskrift segir
fyrir um hvaða viðbrögð eigi við hverju sinni, innan hins ritaða texta.
Tilfinningaleg forskrift er gjarnan sterk líkamleg viðbrögð; fólk þrútnar
af reiði, roðnar af blygðun og springur af harmi, innan hlutlægs texta, þar
sem virðist ekki vera við hæfi að ræða sjálfar tilfinningarnar.22 Það sem er
helst áhugavert við samanburð á þýðingum á riddarasögum og frumgerð-
um þeirra sem oft standa sagnadönsum fremur nærri er að í þýðingunum
er yfirleitt dregið úr tilfinningum eða þær alls ekki orðaðar, þótt þær séu
ræddar í frumtextanum en bardagalýsingar eru gjarnan lengri og ýtarlegri
í þýðingunum en í frumgerðinni. Dæmi um þetta má sjá í bæði Ívens sögu
og Tristrams sögu og Ísöndar.23 Umræða um ást er ekki algeng en hér er eins
og tilfinningaleg forskrift leyfi frekar að fólk sýni framangreind líkamleg
viðbrögð. Það sama á við í sagnadönsum.
21 Samkvæmt hefðbundnum skilningi gæti hér verið átt við heimasætu, þá sem situr
heima en í sagnadönsum virðist það ekki vera hugsunin, heldur er vísað í skandinav-
íska merkingu, sæt = væn.
22 Sjá t.d. Sif Ríkharðsdóttur, „Translating Emotion: Vocalisation and Embodiment
in Yvain and Ívens saga“, Emotions in Medieval Arthurian Literature: Body, Mind,
Voice og Emotion in Old norse Literature: Translations, Voices, Context, bls. 25–56. Sjá
einnig Aldís Guðmundsdóttir, „Því ertu þá svo fölur?“: um tilfinningar í nokkrum
Íslendingasögum, óútgefin MA-ritgerð við Háskóla Íslands, Reykjavík, 1999.
23 Sif Ríkharðsdóttir, Emotion in Old norse Literature: Translations, Voices, Context, um
Ívens sögu, 33–43, um Tristrams sögu og Ísöndar, bls. 33–56.
„REIF HANN HENNAR STAKKINN, REIF HANN HENNAR SERK“