Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 57
58
ar/ henni sátu hjá,/ Brít og hún Barbara/ og jómfrú Máríá.“ Ekki þarf að
útskýra helgi Máríu, Barbara er þekktur dýrlingur í kaþólskum sið og Brít
er líklega sama nafn og Birgitta, sem er þekktur sænskur dýrlingur. Sé það
rétt er efnið yngra en frá árinu 1373, en það ár dó Birgitta.32 Niðurstaðan
er sú að allir hlutaðeigandi nema kóngurinn láta lífið, enda vandlifað eftir
slíkar hörmungar.
„Reif hann hennar stakkinn“ beinir huganum að annarri konu sem föt-
unum var svipt af. Í Sigurdrífumálum ristir Sigurður brynju Sigurdrífu/
Brynhildar frá hálsmáli og niður.33 Í kjölfarið fylgir samtal þeirra tveggja
þar sem hún veitir honum aðgang að visku sinni og ávöxtur þessa fund-
ar er dóttirin Áslaug. Síðar, eftir að Sigurður hefur orðið fyrir töfrum
Grímhildar, móður Guðrúnar Gjúkadóttur, og gleymt Brynhildi, vinn-
ur hann hana aftur en í þetta sinn í líki Gunnars. Í Völsunga sögu liggja
þau með sverð á milli sín eftir að Sigurður hefur riðið vafurlogann í líki
Gunnars, en í Niflungaljóðum er frásögnin með öðrum hætti. Þar brýtur
Siegfried (Sigurður) Brünhild (Brynhildi) á bak aftur með miklum ofsa,
en stígur til hliðar á síðustu stundu og lætur Gunther (Gunnari) eftir að
hafa mök við hana. Í kvæðinu er henni ekki sýnd nein samúð, því konur
sem berjast á móti eins og hún gerir, verður að brjóta á bak aftur því
annars geta þær gefið öðrum konum einhverjar hugmyndir.34 Samkvæmt
Niflungaljóðum missir Brünhild kraft sinn og afl eftir að Siegfried hefur
yfirbugað hana fyrir Gunther með ofbeldi. Eftir að Kriemhild (Guðrún)
greinir síðan Brünhild frá því hvernig allt var í pottinn búið, hefnir hún sín
með því að láta drepa Siegfried og endar eigið líf í beinu framhaldi.35
Líkindi eru svo til engin með þeim Margréti og Brynhildi. Margrét
er fórnarlamb sem lætur lífið í kjölfar nauðgunar, fæðingar þríbura og
íkveikju, en Brynhildur snýst gegn Sigurði sem hefur niðurlægt hana. Hann
niðurlægir hana tvisvar, fyrst með því að taka Guðrúnu Gjúkadóttur fram
yfir hana, og svo aftur með því að yfirbuga hana í líki Gunnars. Segja má
32 B. Fritz, „St. Birgitta and Vadstena Abbey in the scholarly literature published
during the jubilee year, 2003“, Scandinavian Journal of History 29/2004, bls. 279.
33 Eddukvæði, útg. Gísli Sigurðsson, Reykjavík: Mál og menning, 1998, bls. 243–
251.
34 Das Niebelungenlied, eftir útgáfu Karl Barsch, útg. Helmut de Boor, Wiesbaden:
F.A. Brockhaus, 1979, (vísa 673), bls. 115; The Niebelungenlied, þýðandi A.T Hatto,
Harmondsworth: Penguin Books, 1965, bls. 92. Öll frásögnin: Das Niebelungenlied,
(vísur 635– 689), bls. 110–118; The Niebelungenlied, bls. 87–94.
35 „Völsunga saga“, Fornaldarsögur Norðurlanda I, útg. Guðni Jónsson og Bjarni Vil-
hjálmsson, Reykjavík: Bókaútgáfan Forni, 1943, bls. 42–70.
IngIbjörg EyþórsdóttIr