Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 172
177
allar þessar byltingar í kringum mig taldi ég mig öruggari, fann ég fyrir
skjóli, ég gat verið nokkuð viss um að mæta skilningi. Þetta var allavega
ekki lengur tabú eða hvað?
Í skáldsagnaskrifum mínum upplifði ég hér í fyrsta sinn lækningarmátt
bókmenntanna. Það var auðvitað ekki auðvelt að skrifa um þessa hræði-
legu nótt heilum þrjátíu árum síðar (hér naut ég þó reynslu minnar sem
leiðsögumaður um víti fyrir skáldaða ferðamenn) en það reyndist einnig
vera heilandi, líkt og síðbúin áfallameðferð fyrir sálina. Og aldrei hafði ég
betur upplifað forréttindin sem fylgja því stundum að vera rithöfundur.
Hér gat ég í senn skrifað mig undan þungu fargi og notað það sem efni í
góðan kafla.
Þá var það skref að baki. Vissulega erfitt, en því fylgdi líka vellíðan.
Og síðan kom bókin út. Nauðgunin var ekki höfuðatriði í skáldsögunni
en þó mikilvægur þáttur, einskonar holdlegur hápunktur sársaukans sem
ég upplifði þennan vetur og vildi lýsa í bókinni. Og auðvitað heyrði ég
strax fyrir mér spurninguna: „Gerðist þetta í alvörunni?“ Og auðvitað
var ég tilbúinn að svara: „Já, þetta er sjálfsævisöguleg skáldsaga. Það væri
nú ansi fáránlegt af mér að dikta slíkt upp.“ Ég ætlaði ekki að fela mig á
bakvið eitthvert skáldskaparhjal, eitthvað „bókmenntirnar lúta sínum lög-
málum“-bull. Slíkt hefði ekki bara verið absúrd heldur einnig merki um
heigulshátt. Kynningarviðtölin fóru af stað og í einu þeirra kom ég út úr
skápnum: Já, mér var í alvöru nauðgað. Daginn eftir mátti lesa á flestum
vefmiðlum landsins nánast sömu fyrirsögnina: „Hallgrími Helgasyni var
nauðgað“. Ég horfði á þetta með hryllingi, í nokkrar mínútur – hvað í and-
skotanum hafði ég gert núna? – uns það rann upp fyrir mér að þessi fyrir-
sögn hafði auðvitað sést hundrað sinnum áður, en alltaf um konur, aldrei
um karlmann. Það var kominn tími til, hugsaði ég.
Dagana á eftir urðu ýmsar umræður og ég fékk að auki góðar kveðjur.
Fjölmargir (reyndar 90% af þeim konur, „vitrara kynið“) urðu til að klappa
mér á bakið, læka á Facebook og senda stuðningskveðjur: Gott hjá þér
að koma út með þetta. En í vikunni þar á eftir kom eitthvað sem ég hafði
gleymt að reikna með, því nú létu gömlu karlarnir til skarar skríða: Þarna
gerðir þú mistök, „maður á aldrei að afhjúpa sína veikustu bletti“ skrifaði
þekktur eldrimaður í pósti til mín. (Og ég sem hélt að listin snerist m.a.
um það að vinna með sína „veikustu bletti“.) Þá skrifaði gamall geðlæknir
blaðagrein um það sem hann kallaði „Aumingja vikunnar“ og fyrrverandi
ritstjóri tók undir og talaði um „sálræna stólpípu“. Loks steig fram kollegi í
UM HINN SÁRSAUKANDI SÁRSAUKA