Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Qupperneq 204
210
mynd af Þingvöllum Þórarins frá 1900. Eftir umræðu um sögu íslenskrar og
norrænnar landslagslistar, þar sem m.a. er vísað í áhrif Roberts Rosenblum,
ber Hannes myndina saman við fyrstu landslagsmynd sem Georg Guðni
málaði. Þar telur Hannes að hestarnir, bærinn og kirkjan standi sem tákn
um mannlega tilvist, þar sem náttúran leysi upp ímynd einstaklingsins –
áhorfandans og listamannsins – í heilagri heildarmynd. Hannes segir að
mynd Guðna vinni á sama hátt, fyrir utan það að nú leysist áhorfið upp í
fleti málverksins í ljósáferð án sjónarpunkts. Hann finnur þannig samræmi
í áherslum myndanna, sem báðar byggi verkan sína á virkri þátttöku áhorf
andans í sjálfu áhorfinu. Mynd Þórarins er hér túlkuð þannig að hún brúi
bilið á milli tveggja landslagsverka sem öld skilur á milli.85
Lokamyndin: Íslenska listasagan
Júlíana Gottskálksdóttir er sá listfræðingur sem mest hefur unnið með
Þórarin B. Þorláksson og list hans á undanförnum áratugum. Hún stýrði
yfirlitssýningu á verkum hans í Listasafni Íslands árið 2000 og skrifaði í því
samhengi ýtarlega grein í sýningarskrá.86 Hún tók einnig að sér að skrifa
um Þórarin fyrir Íslenska listasögu sem kom út árið 2011.87
Í aðdraganda sínum að umfjöllun á list Þórarins kynnir Júlíana sögu og
forsendur átaka í danskri list á ofanverðri nítjándu öld. Þar byggir hún á
hefðbundnum skilgreiningum og heimildum að mestu, sem eru nokkuð
frábrugðnar þeim áherslum sem hafa verið lagðar hér. Þær eru þó ágætis
yfirlit um það hvernig list Þórarins hefur verið römmuð. Sem slíkar veita
þær einnig innsýn inn í forsendur þess að erfitt hefur verið að skilgreina
list hans og flokka í gegnum tíðina. Júlíana byggir í sögulegri nálgun sinni
á viðgangi rómantíkur í danskri list út nítjándu öldina. Þar er grunnurinn
rómantíkin á fyrri hluta 19. aldar, sem hún túlkar í áherslum um andleg
tengsl náttúru og mannssálar. Þegar líður á öldina skilgreinir hún andstæð
ur í danskri list sem annars vegar natúralískar og róttækar, sem hún leggur
til jafns við raunsæi, og gerð þjóðernisrómantíkur. Undir lok aldarinnar
lítur hún svo á að symbolisminn leysi áðurnefndar stefnur af hólmi sem
85 Hannes Sigurðsson, „Where the earth meets the sky“, Georg Guðni, The Mountain,
sýningarskrá, Akureyri: Listasafn Akureyrar, 2007, bls. 23–94, hér bls. 24 og
80–81.
86 Júlíana Gottskálksdóttir, „Brautryðjandi í byrjun aldar“, Júlíana Gottskálksdóttir,
sýningarstjóri, Þórarinn B. Þorláksson: Brautryðjandi í byrjun aldar, sýningarskrá,
Reykjavík: Listasafn Íslands, 2000, bls. 9–33.
87 Júlíana Gottskálksdóttir, „Þórarinn B. Þorláksson og Ásgrímur Jónsson“, bls.
76–121.
Hlynur Helgason