Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 223
230
kunnuglegar skynsemishugmyndir og áherslu á bjargræði – maður hljóti
fyrst og fremst að þurfa að bjarga sjálfum sér og kannski líka sínum allra
nánustu, hvað sem öðrum líði. En hvað merkir þetta þegar horft er yfir
heilt samfélag? Í vissum skilningi býr samfélagið í vitund hvers og eins, til
hliðar og saman við einrúmið sem stundum vill rífa sig laust og marka fyrst
og fremst sinn eigin hring. Það hefur stundum verið bent á að í aðdrag-
anda kosninga á Íslandi tali fulltrúar allra flokka sem félagshyggjufólk –
hvað sem framhaldinu líður, þar sem staða hinna „einstöku“ hafnar síðan
gjarnan í fyrirrúmi. Lokaorðin í Snörunni eru, í róttækri tvöfeldni sinni,
líklega ein beittustu og kaldhæðnustu orð í íslenskum bókmenntum: „Við
stöndum saman, við stöndum sko saman – eins og einn maður.“25
Vegir í verkum
Margt gott hefur verið skrifað um Snöruna en enn er þar margt sem
skyggna þarf og það sama á við, og raunar enn frekar, um skáldsöguna
Lifandi vatnið – – – frá 1974. Greinarhöfundi finnst við endurkynni að það
verk hafi hann sennilega lesið og skilið um of út frá andstæðum sveitalífs og
borgarinnar þar sem firringin bíður oft við næsta horn. Það orsakast meðal
annars af því hvernig þær andstæður eru byggðar inn í aðalpersónuna,
Pétur Pétursson, sem einn daginn hverfur úr borgarveruleika sínum og fer
einsamall í ferðalag til upprunans. En eins og segir á lokasíðu: „Ég get ekki
horfið aftur til upphafs míns, annar var þar.“26 Hér er verkamaður á ferð,
eins og í Snörunni, en margröddun verksins er hins vegar umfangsmeiri
og flóknari, eins og Ásta Kristín Benediktsdóttir hefur greint í prýðilegri
ritgerð.27 Og við þurfum meðal annars að hlusta á margröddunina í heiti
verksins. Með orðunum „lifandi vatnið“ er höfundur ekki eingöngu að
benda á náttúruna og sveitina heldur á lifandi samband. Söguhetjan, horfni
eða týndi maðurinn, hefur lent í snöru sinna eigin hugsjóna og hjálparlaus
fær hann að reyna hugsjónafall. Hann hefur séð íslenskar aðstæður vænk-
ast, samfélagið rísa úr fátækt en jafnframt er það tekið til handargagns,
25 Jakobína Sigurðardóttir, Snaran, Reykjavík: Heimskringla, 1968, bls. 120.
26 Lifandi vatnið – – –, Hafnarfjörður: Skuggsjá, 1974, bls. 203. Í eftirfarandi umfjöllun
verður vísað til verksins með blaðsíðutali í svigum innan meginmáls.
27 Ásta Kristín Benediktsdóttir, „„Form og stíll örðugt viðfangs.“ Fjölradda frásagnir
og Lifandi vatnið – – – eftir Jakobínu Sigurðardóttur“, Ritið 1/2012, bls. 141–159.
Sjá einnig grein eftir Turið Sigurðardóttur: „Lýst er eftir Pétri Péturssyni verka-
manni. nokkrar athuganir á samfélagslýsingu skáldsögunnar Lifandi vatnið eftir
Jakobínu Sigurðardóttur“, Tímarit Máls og menningar 2/1977, bls. 154–181.
ÁstrÁður EystEinsson