Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 201
207
hér sé einungis um tilgátu að ræða – það séu engar táknrænar tengingar í
myndinni sem vísi í ljóðið á neinn hátt. Halldór er að vissu leyti að vinna
með svipaðar hugmyndir og Gunnar í skoðun sinni á verkum Þórarins,
út frá skáldskaparminnum rómantísku stefnunnar. Hann reynir þó einnig
að tengja Þórarin líka við áherslur samtímamanna hans, sem upphafs
manns nútímamálaralistar: „Þótt Þórarinn hafi verið gagnrýndur í upphafi
nútímamálaralistar fyrir að fylgja um of akademískum vinnubrögðum, þá
nýtur hann nú aðdáunar fyrir trúverðugt raunsæi sitt, þar sem hann náði
að fanga tært yfirjarðneskt andrúmsloft dreifbýlasta lands Evrópu.“72 Hér
er orðfærið sérkennilegt, í því að tengja saman ólíkar áherslur raunsæis og
andlegra áhrifa við þjóðlegar hugmyndir um landið sjálft. Halldór virðist í
flæði sínu tengja list Þórarins við ljóðræna og þjóðlega rómantík, en tengir
þær áherslur á sama tíma við „trúverðugt raunsæi“, nokkuð sem erfitt er að
finna stað í list Þórarins.
Inntak þjóðernislegrar listar
Árið 2001 var opnuð sýning með íslenskum landslagsmyndum í
Bandaríkjunum. Auður Ólafsdóttir listfræðingur skrifaði grein í skrá sem
fylgdi sýningunni,73 auk þess sem hún ritaði grein út frá henni sem birt
ist í Lesbók Morgunblaðsins.74 Þar skoðar Auður tengsl íslenskra myndlist
armanna við náttúruna allt til samtímans. Í upphafi leggur hún grunn
að röksemdum sínum út frá greiningu á hlutverki fyrstu listmálaranna í
íslensku menningarlífi: „Hlutverk fyrstu atvinnumyndlistarmanna þjóð
arinnar var að heita má uppeldislegs eðlis; þeir leggja grundvöll að hefð,
um leið skilgreina þeir inntak þjóðernislegrar listar og loks miðla þeir nýrri
náttúrusýn til þjóðarinnar, nýjum hugmyndum um inntak náttúrufegurð
ar.“75 Hér leggur Auður áherslu á það að íslenskur almenningur hafi ekki
haft til að bera sjónrænan þroska til að meta og skilja fegurð náttúrunnar:
„Skilin milli táknsins og hins táknaða voru nær engin, eins og algengt
er hjá ólistvönu fólki.“76 Hún bendir á að með fyrstu sýningu Þórarins
árið 1900 í Glasgowhúsinu hafi: „landslagsmálverk orðið grundvöllur
72 Sama rit, bls. 49.
73 Auður Ólafsdóttir, „Visions of nature in Icelandic art“, Confronting nature, sýning
arskrá, ritstj. Ólafur Kvaran og Karla Kristjánsdóttir, Reykjavík: National Gallery
of Iceland, 2001, bls. 23–38.
74 Auður Ólafsdóttir, „Hið upphafna norður“, Lesbók Morgunblaðsins, 13. október
2001, bls. 4–5.
75 Sama rit, bls. 4.
76 Sami staður.
VIðTöKUR Á VERKUM ÞÓRARINS B. ÞoRLÁKSSoNAR