Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 116
118
who is Self-identified, is a Spinster, a whirling dervish, spinning in a new
time/space“).80 Mary Daly gaf síðar út heila bók með orðskýringum.81
Það hefur raunar verið liður í kvennabaráttu víða um lönd að taka
merkingu orða í sínar hendur. Ýmist er neikvæðum orðum um konur gefin
ný og jákvæðari merking eða gömul merking lífguð við og orðin þannig
endurheimt.82 Með þessu er reynt að draga broddinn úr niðrandi orðum
og gera hlut kvenna í tungumálinu meiri. Þetta hefur þótt vera góð leið
til að vekja athygli á misræmi í orðaforða um karla og konur, sem túlkað
er sem mismunun, og hafa hvetjandi áhrif á konur sem nota orðin á nýjan
hátt. Hins vegar hefur einnig verið bent á að hin gamla feðraveldismerk-
ing orðanna hverfi ekki samstundis, heldur sé hætt við að óinnvígðir haldi
áfram að nota þau í gömlu merkingunni, og þetta fæli konur jafnvel frá
þeim konum sem kalli sig t.d. nornir eða kerlingarskrukkur.83
Umræðan um misrétti í tungumálinu var vel þekkt meðal íslenskra
jafnréttissinna á síðari hluta 20. aldar, og þessi eindregna hvatning í víð-
lesnum ritum femínista erlendis leiðir hugann að því hvort vilji íslenskra
kvenna til að hafa áhrif á merkingu orðsins gleðikona tengist erlendri mál-
farsjafnréttisbaráttu beint. Ekki virðist Gleðikvennafélag Vallahrepps
þó vera sprottið af erlendum boðskap um endurheimt niðrandi orða um
konur. Að sögn Jónínu Rósar Guðmundsdóttur var barátta hinna kátu
kvenna á Fljótsdalshéraði sjálfsprottin,84 og auðvitað þarf ekki að efast um
að Íslendingar hafi getað áttað sig á misræmi í merkingu orðanna gleðimað-
ur og gleðikona af eigin rammleik, viljað grípa til aðgerða og jafnvel orðið
nokkuð ágengt. Að einu leyti má segja að gleðikonunum í Vallahreppi hafi
orðið að ósk sinni: núna eru tvær merkingar orðsins gleðikona sýndar í
Íslenskri nútímamálsorðabók, annars vegar „kona sem stundar vændi, vænd-
iskona“ og hins vegar „kona sem nýtur sín vel í samkvæmum og gleð-
skap“,85 hvort sem það eru bein áhrif frá Gleðikvennafélagi Vallahrepps
eða ekki.
80 Mary Daly, Gyn/Ecology: The Metaethics of Radical Feminism, Boston: Beacon Press,
1978, bls. 3–4.
81 Mary Daly, Websters’ First New Intergalactic Wickedary of the English Language, Con-
jured by Mary Daly in cahoots with Jane Caputi, Boston: Beacon Press, 1987.
82 Um endurheimtina er notað enska orðið reclaiming. Sjá Anne Pauwels, Women
Changing Language, London og new York: Longman, 1998, bls. 102.
83 Sama rit, bls. 102–103.
84 Jónína Rós Guðmundsdóttir, bréfl. 13. mars 2018.
85 Íslensk nútímamálsorðabók, sótt 15. mars 2018 af http://islenskordabok.arnastofnun.
is/islob?ord=15742.
Guðrún Þórhallsdóttir