Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 118
120
eru samheitin vændiskona í þriðja flokki, þar sem form orðsins telst ekki
ljótt en merkingarmiðið líklegt til að vekja óþægindakenndir, og hóra sem
er ljótt bæði hvað snertir form og merkingarmið. Orð eru þó ekki endilega
bundin einum flokki alla tíð. Í skrifum sínum um orðin hommi og lesbía
sýndi Þóra að þau hefðu flust úr fjórða flokki í þann þriðja og jafnvel þann
fyrsta.88
Ef gleði-orðin eru flokkuð eftir þessu kerfi er ljóst að flakk milli flokka
hefur komið þar við sögu. Orðið gleðimaður hefur haldið sig við fyrsta
flokkinn með form sem ekki er hægt að kalla ljótt og hina hlutlausu merk-
ingu ‘fjörugur maður, samkvæmismaður’. Þótt það hafi ekki eingöngu
verið notað sem hrósyrði hefur það ekki eignast skýra yngri merkingu
sem hægt er að flokka sem ljóta. Hins vegar hefur orðið gleðikona flakkað
milli flokka. Ef leiðin frá merkingu (A), ‘fjörug kona, kona gefin fyrir gleð-
skap’, til (B), ‘lauslætisdrós’, og (C), ‘vændiskona’, er rétt aldursröð hefur
orðið upphaflega átt heima í fyrsta flokki eins og gleðimaður. Við að eignast
merkingu (B) og (C) hefur það flust í þriðja flokk; formið hefur enn verið
hlutlaust en merkingarmiðið orðið ljótt.
Önnur gleði-orð, sem birtast í heimildum frá 20. öld, hafa verið mynduð
sem tilbrigði við orðin gleðimaður og gleðikona og hafa ýmist merkingu af
gerðinni (A), (B) eða (C). Orðin gleðimenni og gleðimanneskja hafa til dæmis
aðeins merkingu (A) og eiga heima í fyrsta flokki. Eins og sýnt var hér að
framan hafa sum orðanna merkingu af fleiri en einu tagi, t.d. gleðigaur og
gleðikarl. Í þeim tilvikum má telja óvíst að orðið hafi upphaflega haft merk-
ingu (A) og síðar flust yfir í þriðja flokk þegar merking (B) eða (C) varð
til. Þessi orð eru mjög fátíð í textum og hafa varla náð mikilli útbreiðslu.
Einn málnotandi kann að hafa myndað slíkt nýyrði í merkingu (A), annar
í merkingu (B) og sá þriðji í merkingu (C), án þess að samband sé þar á
milli, og ekki er hægt að ganga að því vísu að merking (A) sé þá elst.
Form gleði-orðanna má, á heildina litið, kalla hlutlaust. Að formi til
eru gleðidrós og gleðigaur þó heldur nær ljótleikanum en hin orðin af því að
orðin drós og gaur hafa ekki verið eins hlutlaus og þau orð sem mynda síð-
ari lið hinna gleði-samsetninganna. Samt væri vafasamt að fella þau í fjórða
flokk. Fyrri liðurinn gleði- gefur drós og gaur léttara yfirbragð og ekki
er öruggt að orðin gleðidrós og gleðigaur kæmu verr við fólk en til dæmis
gleðimær og gleðikarl. Það að orðið gleðigaur hefur verið viðurnefni trúðsins
Geira sýnir einnig að orðið sjálft er ekki líklegt til að þykja óþægilegt.
88 Þóra Björk Hjartardóttir, „Baráttan um orðin“, bls. 116.
Guðrún Þórhallsdóttir