Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 66
68
Þórhildur og ÞorgErður
staðið óbreytt um áratugaskeið. Ákvæðinu var breytt 23. mars 2018 og er
þungamiðja ákvæðisins nú samþykki brotaþola. Slík breyting er líkleg til
að auka réttaröryggi þolenda. En til að meta breytingar er mikilvægt að
rannsaka hver þróunin hefur verið í málaflokknum yfir lengra tímabil og
er þessi rannsókn liður í slíkri viðleitni.
Þrjár meginspurningar liggja til grundvallar í þessari umfjöllun:
1. Hvaða sjónarmið og viðhorf eru ríkjandi í niðurstöðum Hæsta
réttar í málum er varða 1. mgr. 194. gr. hgl. á tímabilinu 1992 til
2015?
2. Má greina undirskipun kvenna í niðurstöðum Hæstaréttar og
réttarkerfinu í heild?
3. Er réttarkerfið (enn) hliðhollt geranda eftir breytingarnar 1992
og 2007 á kynferðisbrotakafla hegningarlaga og þá á hvaða hátt?
Brotið ‚nauðgun‘ og þróun kynferðisbrotakafla almennra
hegningarlaga
Félagsgerðin er ósýnilegt afl sem litar hugsun fólks og stofnanir sam
félagsins og hafa fræðimenn haldið því fram að þessi hugsun sé karllæg.1
Bourdieu telur að karlar hafi haft vald til að skilgreina veruleikann út frá
sínum forsendum og útiloka aðrar skilgreiningar og því sé ríkjandi hugsun
um tilveruna karllæg og greypt inn í ýmsar stofnanir svo sem laga og rétt
arkerfið. Sjónarmið karla liggi til grundvallar skilgreiningum á konum, á
líkömum þeirra og reynslu, og lífsviðhorf karla liggi til grundvallar í rétt
inum. Hlutverk kynjanna í samfélaginu eru ólík, sömuleiðis reynsla þeirra
og lífsskilyrði,2 og sést það glöggt á þróun kynferðisbrotakafla almennra
hegningarlaga og því hvernig nauðgun hefur verið skilgreind í lögum.
Almennu hegningarlögin voru óbreytt frá 1869 til 1940 eða í rúmlega
70 ár. Refsingar fyrir nauðgun voru bundnar skilyrðum í lögunum frá
1869. Aðeins mátti refsa fyrir nauðgun ef konan hafði ekki á sér óorð. Þótt
skilyrðin féllu brott 1940 lifðu viðhorfin áfram.3 Engar breytingar voru
gerðar á kynferðisbrotakafla hgl. eftir 1940 uns þeim kafla laganna var
1 Sylvia Walby, Theorizing patriarchy, Oxford, Cambridge: WileyBlackwell, 1990;
Pierre Bourdieu, Masculine domination, Cambridge: Polity Press, 2001.
2 Brynhildur Flóvenz, „Um rétt og kynferði“, Rannsóknir í félagsvísindum V. Lagadeild,
ritstj. Aðalheiður Jóhannsdóttir, Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands,
2004, bls. 81–104, hér bls. 82.
3 Þórunn Hafstein, „Lögin um nauðgun“, Vera, 2/1982, bls. 12–14.