Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 159
163
án gildra ástæðna verið skilnaðarsök“.38 Í þessari rannsókn komu réttinda-
skýringar fram hjá þolendum, bæði varðandi hegðun gerandans og viðhorf
samfélagsins:
Ég vildi að stráknum sem nauðgaði mér hefði ekki verið kennt að
hann ætti það inni hjá mér að ég myndi sofa hjá honum.
Hér sést mjög skýrt að þolandinn telur samfélagið og viðhorf sem strákum
séu kennd vera stóran orsakaþátt í ofbeldinu. Í ástarsamböndum geta slík-
ar hugmyndir um réttindi einnig komið við sögu, þ.e. að konum sé skylt að
veita maka sínum kynlíf:
„Ef ég fæ ekki að ríða þér, þá er ég hættur með þér.“ Ég veit ekki
hversu oft þessi setning hefur spilast í hausnum á mér og mér hefur
langað að fara aftur í tímann og knúsa brotnuðu litlu mig og segja
að ég eigi að standa með sjálfri mér.
Hér setur þolandinn fram réttindaskýringu í þeim skýra tilgangi að hafna
henni. Réttindaskýringar má sjá víða í samfélaginu, til dæmis meðal hóps
sem nefnir sig „incels“ og segist stunda skírlífi gegn vilja sínum (e. invol-
untarily celibate). Meðlimi hans má finna víða um heim en þeir álíta að karl-
ar eigi rétt á kynlífi og að það sé óréttlátt ef konur vilji ekki stunda kynlíf
með þeim. Viðbrögð þeirra við meintu óréttlæti eru hatur og ofbeldi, en
nýlega hafa einstaklingar sem kenna sig við þessa hreyfingu gerst sekir
um hryðjuverk.39 Réttindaskýringar eru því hættulegar vegna þess að þær
eru notaðar til að réttlæta yfirstaðið ofbeldi og það sem meira er, þær geta
einnig stuðlað að frekara ofbeldi seinna meir, líkt og aðrar ranghugmyndir
sem eru notaðar til að réttlæta ofbeldi.
Síðasta samfélagslega skýringin er hlutgerving, en hún felur í sér að
fólk er metið út frá útliti og notagildi fyrir aðra. Það á sérstaklega við um
konur, sem þá eru metnar eftir því hvernig líkamar þeirra geta nýst til
38 Ármann Snævarr, Sifjaréttur II (4. útgáfa), Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1988, bls.
351.
39 Alek Minassian drap 10 manns í apríl 2018 í Toronto, Kanada, og Elliot Rodger
drap 6 manns í maí 2014 í Kaliforníu, Bandaríkjunum, en báðir kenndu sig við
Incel hreyfinguna. Sjá Robin Abcaria, „The idea of an incel rebellion would be
laughable if it hadn’t already resulted in so many murders“, Los Angeles Times, 8.
maí 2018, sótt 12. júní 2018 af http://www.latimes.com/local/abcarian/la-me-abc-
arian-incels-20180508-story.html.
„ÞÚ VEIST ÞÚ VILT ÞAð“