Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 144
147
tímanum, sullumbulli síbernskunnar“ og telur efni bókarinnar, „eftirköst
nauðgunar“, vera „rétt eins og úr Kastljósþætti“.55
Til viðbótar við kosti og galla skáldsögunnar bar nokkuð oft á góma að
um bók eftir karl væri að ræða, að hér væri karl að taka til máls fyrir hönd
kvenna. Eðlilegt er að staldra við þessa staðreynd, t.a.m. í ljósi viðtakna
bókarinnar sem voru að mestu leyti jákvæðar og illdeilulausar. Hildur
Lilliendahl er ekki viss um að sama skáldsaga rituð af konu myndi sitja
á friðarstóli með sambærilegum hætti. Í greininni sem vísað er til hér að
framan ræðir hún harðar árásir sem konur hafa orðið fyrir sem stigið hafa
fram til að ræða áþekk málefni og fjallað er um í skáldsögunni: „Steinar
Bragi sleppur við þetta allt saman og ég leyfi mér að segja: Það er bara af
því að hann er karl. Það er óþolandi og ömurlegt.“56 Kolbrún Ósk tekur í
sama streng:
Ég held að það skipti einmitt miklu máli að karlmaður hafi skrifað
þessa bók. Eins grunnt og það eflaust hljómar þá efast ég stórlega
um að karlmenn hefðu haft áhuga á að lesa bók um konu sem fjallar
um það sem Kata fjallar um. En þar sem karlmaður skrifar þá langar
alla til að lesa, bæði konur og menn. Það er að sjálfsögðu frábært en
að sama skapi ákaflega sorglegt. Að karlmaður þurfi að skrifa bók
um ofbeldi gegn konum til þess að þjóðfélagið allt sýni því áhuga að
lesa bókina, ekki bara helmingur þess.57
Steinar Bragi hefur sjálfur snert á þessu viðtökufræðilega málefni og virðist
ekki ósammála þeim sem telja kyn hans hafa verndað hann fyrir gagnrýni
og mögulegu atkasti: „Ef ég væri kona sem hefði skrifað þessa bók hefði ég
getað lent í því að umræðan um bókina yrði smættuð niður í að hún væri
stimpluð öfgafemínískt rit. Reyndin er sú að hún er kynnt sem eldfimur
spennutryllir“.58 Sjálfur tel ég afar sennilegt að Kata hefði fengið aðrar
viðtökur væri hún skrifuð af konu. Sama kann að eiga við um þessa grein.
55 Hermann Stefánsson, „Eymdarstuna úr ættarmóti“, 13. maí 2015, sótt 22. mars
2018 af https://kjarninn.is/skodun/eymdarstuna-ur-aettarmoti/.
56 Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, „AKTA! – KATA! – HATA!“, bls. 260.
57 Kolbrún Ósk Skaftadóttir, „Að verja barnið sitt með kjafti og klóm“.
58 Höfundur óþekktur, „Í von um vakningu eða svar“, Akureyri.net, 12. desember
2014, sótt 22. mars 2018 af http://www.akureyri.net/frettir/2014/12/12/i-von-um-
vakningu-eda-svar/.
STRÍð GEGN KONUM