Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2018, Blaðsíða 150
154
Rannsóknir á skýringum ofbeldis eru oftast gerðar með tvennum hætti:
Með því að taka viðtöl eða leggja spurningalista fyrir gerendur eða þol-
endur. Aðferðirnar hafa sína kosti og galla, þar sem viðtöl leyfa djúpa
greiningu á litlum hópi en með notkun spurningalista má safna tölulegum
gögnum frá stórum hópi. Sýn rannsakandans á viðfangsefnið mótar um
hvað er spurt og hvernig, en viðtöl bjóða upp á meiri sveigjanleika hvað
þetta varðar. Samfélagsmiðlar hafa opnað nýja leið til að rannsaka skýr-
ingar á ofbeldi, þar sem mikið efni hefur verið gert opinbert sem fjallar um
upplifanir, skoðanir og tilfinningar fólks. Kosturinn er að færslurnar koma
beint frá viðkomandi aðilum án milligöngu fræðimanna. Þetta skiptir máli
af því að samfélagsumræðan um ofbeldi ætti ekki aðeins að fara fram milli
fræðimanna, heldur einnig meðal almennings og þá sérstaklega þeirra sem
hafa persónulega reynslu af málaflokknum. Rannsóknir á samfélagsmiðl-
um geta líka auðveldað rannsóknir á viðkvæmum viðfangsefnum því þær
fela yfirleitt í sér minna inngrip fyrir þátttakendur.14 Líkt og með aðrar
rannsóknir mótar sýn fræðimanna þó þessa tegund gagna á einhvern hátt,
því merking er lesin út úr færslunum sjálfum. Fyrsta rannsókn þessarar
tegundar kom út árið 2017 og skoðaði frásagnir gerenda kynferðisofbeld-
is sem þeir birtu nafnlaust á síðunni Reddit.15 Auglýst var eftir sögum
gerenda og spurt hvað hefði vakað fyrir þeim og hvort þeir sæju eftir að
hafa brotið á öðrum. Rannsakendur greindu skýringar og réttlætingar í 68
sögum gerenda og komust að því að þær sneru yfirleitt að samfélaginu eða
þolandanum, ekki að gerandanum sjálfum.
Rannsóknin sem hér verður greint frá er sú fyrsta hérlendis sem skoðar
skýringar á ofbeldi og sú fyrsta í heiminum sem nýtir sér gögn frá þol-
endum kynferðisofbeldis af samfélagsmiðlum til þess (svo höfundur viti
til).16 Rannsóknin byggir á íslenskum færslum sem þolendur kynferðis-
sexual assault“, Journal of Interpersonal Violence, 32: 22/2017, bls. 3520–3538, hér
bls. 3527.
14 Timothy D. Wilson, Elliot Aronson og Kevin Carlsmith, „The art of laboratory
experimentation“, Handbook of Social Psychology, ritstj. Susan T. Fiske, Daniel T.
Gilbert og Gardner Lindzey, Hoboken NJ: Wiley, bls. 51–81.
15 Reddit.com er vefsíða þar sem notendur setja inn fréttir, myndir og fleira og aðrir
geta komið með viðbrögð og athugasemdir. Í febrúar 2018 voru 542 milljón heim-
sókna á síðuna (sbr. https://en.wikipedia.org/wiki/Reddit). Sjá grein um skýringar
gerenda í Tracy N. Hipp o.fl., „Justifying sexual assault: Anonymous perpetrators
speak out online“, bls. 82.
16 Fjölbreyttar rannsóknir á samfélagsmiðlum eiga sér stað um allan heim, til dæmis til
að skoða kosningahegðun fólks í samhengi við nýtingu á samfélagsmiðlum. Einnig
hafa sumir rannsakendur skoðað frásagnir af netinu um kynferðisofbeldi og við-
Rannveig SiguRvinSdóttiR