Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 9
MARTEINN SINDRI, STEINAR ÖRN, GUÐRÚN OG SIGRÚN MARGRÉT
12
Dagnýjar Kristjánsdóttur „Kóralína og mæður hennar. Um vandkvæði þess
að skipta um móður í Kóralínu eftir Neil Gaiman“, varpar skýru ljósi á ann-
marka upphaflegu kenningarinnar. Ennfremur ræðir Dagný skrif Freuds um
hið ókennilega (þ. das Unheimliche) með hliðsjón af úrkasti (fr. abject) Juliu
Kristevu, hryllingskonu (e. the monstrous feminine) Barböru Creed og kenn-
inga Brunos Bettelheim sem notaði gömlu ævintýrin í sálgreiningarvinnu
sinni með börnum og unglingum.
Eitt mikilverðasta framlag Freuds felst í hugmyndum hans um dulvit-
undina.20 Hún er jafnframt einn óræðasti þáttur sálgreiningarinnar og hafa
margir hafnað dulvitundinni sem hjávísindum og heilaspuna. Freud viður-
kenndi sjálfur að það væri erfitt að nálgast þennan sálræna veruleika með
vísindalegum hætti: „Vér köllum sálrænt ferli dulvitað þegar vér verðum að
gera ráð fyrir tilvist þess vegna þess að vér ályktum um það af áhrifum þess –
en vitum ekkert um það“.21 Þannig sá Freud dulvitundina mjög víða að verki:
í draumum, mismælum, pennaglöpum, gagnúð22 og svo framvegis. Freud
20 Sæunn Kjartansdóttir fjallar meðal annars um klassíska sálgreiningu, viðfangs-
tengslakenningar og sjónarhorn femínískra sálgreinenda í bók sinni Hvað gengur
fólki til? Leit sálgreiningar að skilningi, Reykjavík: Mál og menning, 1999. Hún segir
að þrátt fyrir ágreining innan sálgreiningarinnar séu þrjár forsendur óumdeildar:
„Fyrsta forsendan er að stöðugt eigi sér stað ómeðvituð sálræn virkni sem hefur áhrif
á líðan okkar og gerðir. Önnur forsenda sálgreiningar er að við beitum sálrænum
varnarháttum til þess að verja okkur fyrir vitneskju um hið ómeðvitaða. Þriðja for-
sendan er að tengsl okkar við aðra séu mótuð af tengslum við lykilpersónur barn-
æskunnar“ (bls. 21). Dulvitundin var í sjálfu sér ekki uppfinning Freuds; ýmsir heim-
spekingar höfðu notað hugtakið á 19. öld og hafði Eduard von Hartmann meira
að segja skrifað þriggja binda verk sem kom út árið 1869 og nefndist Heimspeki
hins dulvitaða (Philosophie des Unbewussten). Þetta verk hafði þó litla þýðingu fyrir
þróun sálgreiningarinnar. Öðru máli gegnir um hugmyndir Friedrichs Nietzsche og
Arthurs Schopenhauer sem fjölluðu í verkum sínum um margt sem sálgreinendur
áttu síðar eftir að taka til greina. Sigmund Freud hafði aftur á móti lítinn áhuga á
skrifum heimspekinganna, enda leit hann á sig sem raunvísindamann, eins og áður
hefur komið fram. Sjá Josef Rattner og Gerhard Danzer, Psychoanalyse heute. Zum
150. Geburtstag von Sigmund Freud (6. Mai 1856), Würzburg: Königshausen & Neu-
mann, 2006, bls. 82−83.
21 Sigmund Freud, „Sundurgreining hins sálræna persónuleika“, Nýir inngangsfyrir-
lestrar um sálkönnun, þýðandi Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Hið íslenska bók-
menntafélag, 1997, bls. 67–92, hér bls. 81. Sjá einnig umfjöllun um dulvitundina
í Jean Laplanche og Jean-Bertrand Pontalis, The Language of Psycho-Analysis, New
York: Norton, 1973, bls. 474–476.
22 Gagnúð er annað hugtak yfir það sem kallast í sálgreiningarmeðferð yfirfærsla.
Dagný Kristjánsdóttir ræðir hugtökin yfirfærsla og gagnyfirfærsla með greinagóðum
hætti í „Dóra í meðferð Freuds“, bls. 97–101.