Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 10
ARFLEIFð FREUDS
13
kýs að nota ópersónulegt fornafn — það — um dulvitundina því það „virðist
henta sérstaklega vel til að tjá höfuðeinkenni þessa sálræna svæðis – að vera
sjálfinu framandi“.23
Þær minningar, upplifanir, ímyndanir og hugmyndir sem tengjast kröfum
eðlishvatanna um fullnægju hlaðast neikvæðri, óþægilegri spennu, að sögn
Freuds, og er haldið frá sjálfsvitundinni (en knýja manninn samt til athafna).
Þetta er í grundvallaratriðum það sem Freud kallar bælingu, einstaklingurinn
glímir við að halda þeim óskum sem samviskan hleypir ekki í gegn fyrir utan
meðvitaða reynslu sjálfsins. Bæling er einn varnarhátta sjálfsins og getur
hræðsla þess við kenndirnar sem eru bældar brotist út, samkvæmt Freud, í
taugaveiklun, sefasýki eða annars konar sjúkdómseinkennum. Veruleiki dul-
vitundarinnar skiptir því höfuðmáli þegar kemur að klínískri vinnu, enda
er markmið sálgreiningarmeðferðar að koma á sambandi á milli sjálfsins og
þaðsins, „að styrkja sjálfið, gera það óháðara yfirsjálfinu, víkka skynjunar-
svið þess og bæta skipulag, svo að það geti nálgast nýja hluta þaðsins. Þar
sem þaðið var mun sjálfið verða“.24 Verkefnið, segir Freud, er að viðurkenna
þátt hins ólgandi hvatalífs í manninum og í siðmenningunni og takast á við
þann veruleika af heilindum jafnframt því að komast sæmilega óskaddaður
undan oki siðmenningarinnar. Bælingin er lykilatriði í ritgerðinni „Neitun“
sem birtist hér í þýðingu Sigurjóns Björnssonar sálfræðings. Að öðrum
ólöstuðum hefur Sigurjón lagt einna mest af mörkum hér á landi til rann-
sókna á sviði sálgreiningar með þýðingum sínum á verkum Freuds, sem og
kennslu og skrifum er varða efnið. Sigurjón hefur þýtt á annan tug lykilverka
Freuds sem komið hafa út á síðustu þremur áratugum og því er sannarlega
við hæfi að ný þýðing úr smiðju Sigurjóns líti hér dagsins ljós. Í ritgerðinni
ræðir Freud hvernig neitun ákveðinnar hugsunar hjá sjúklingi getur lokað
eða opnað sálgreinandanum leiðina að dulvitund hans, því neitunin leiðir í
raun í ljós hugsun sem er of erfitt að horfast í augu við. Þar segir beinlínis:
„Neitun er leið til að kynnast því sem bælt er“.
Kenningar sínar notaði Freud þó ekki aðeins til að greina sálrænar form-
gerðir og sjúkdómseinkenni, heldur einnig til að varpa ljósi á menningu og
líf fólks í samfélagi, á listir, bókmenntir og goðsögur. Þræðir bókmennta og
lista eru ofnir í fjölmörgum greinum þessa heftis, meðal annars í þýðingu
Benedikts Hjartarsonar á grein Friedrichs Kittler, „Rómantík – sálgreining
– kvikmynd. Um sögu tvífarans“, en þar er fjallað um sögu tvífarakenninga
23 Sigmund Freud, „Sundurgreining hins sálræna persónuleika“, bls. 83.
24 Sama heimild, bls. 92.