Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Qupperneq 18
ARFLEIFð FREUDS
21
Ýmsar þekkingarhefðir, þar með talið trúarbrögð og heimspeki, höfðu gert
tilraunir til að svara þeim spurningum sem sálgreiningin hefur varpað fram,
áður en læknisfræðin, sálfræðin og geðlæknisfræðin tóku þær upp á arma
sína. Margháttuð þekking á stefnumóti líkamans og menningarinnar hefur
áunnist á undanförnum áratugum og öldum, en þó eru ótal spurningar enn
knýjandi og ekki í sjónmáli að við þeim finnist tvímælalaus svör. Það er ekki
víst að við ættum að leita til sálgreiningar í von um að finna þau. Mun frem-
ur mætti líta svo á að textar úr ranni sálgreiningar geti varpað áhugaverðu
ljósi á tilraunir okkar til að skilja margt sem erfitt er að skilja. Af og til varpa
þeir ljósi á takmarkanir þekkingar okkar, öðrum stundum bera þeir frjóu
ímyndunarafli og sköpunargáfu vitni, í sumum tilvikum veita þeir innsýn í
þau mein sem við teljum sækja að okkur í nútímanum en oftar en ekki byrgja
þeir okkur kannski sýn á veruleikann. Þá er ágætt að hafa í huga orð Bjargar
C. Þorláksson sem fyrst íslenskra kvenna lauk doktorsprófi á þeim tíma sem
sálgreiningin hafði náð töluverðri útbreiðslu í Evrópu og Bandaríkjunum:
Og ýmsir fleiri áhangendur dr. Freud [en dr. Rank] gera sjer mikið
far um að alhæfa sálgreininguna og skýra alt milli himins og jarðar
fyrir ljós það, er hún varpi yfir lífið og lífsfyrirbrigðin. Gera þeir
þetta í einlægri aðdáun en úr verður ógagn eitt.46
Hvað sem öðru líður ber þetta fræðasvið vitni um tilraunir okkar til sjálfs-
skilnings, ekki síður en hugsunum okkar um eldfim og aðkallandi efni, svo
sem uppeldi, kynferði, neyslu, vald og uppruna og – þegar öllu er á botninn
hvolft – hugmyndum okkar um það hvað er gott og hvað er illt.
Marteinn Sindri Jónsson,
Steinar Örn Erluson,
Guðrún Steinþórsdóttir og
Sigrún Margrét Guðmundsdóttir
tential Psychology & Psychiatry 18/1985, bls. 67–72, hér bls. 70. Textinn er fenginn úr
óbirtri þýðingu Ingibjargar Þorsteinsdóttur.
46 Björg C. Þorláksson, „Sálgreining“, Iðunn 13/1929, bls. 21–47, hér bls. 47. Sig-
ríður Þorgeirsdóttir hefur skrifað um mannskilning Freuds og Bjargar í greininni
„Að koma Björgu á kortið. Heimspeki Bjargar C. Þorláksson í evrópsku samhengi“,
Björg. Verk Bjargar C. Þorláksson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir ritstýrði, Reykja-
vík: JPV útgáfa, 2002, bls. 159–182.