Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 20
Torfi H. Tulinius
Til móts við dauðann í Brennu-Njáls sögu
Í þessari grein er leitast við að nálgast Brennu-Njáls sögu með hugtökum
sálgreiningarinnar, einkum og sér í lagi með hliðsjón af kenningunni um
dauðahvötina einni umdeildustu hugmynd Sigmund Freuds. Sagan er ein
af Íslendingasögunum, en atburðir þeirra gerast á tímanum frá landnámi til
kristnitöku, á 9. og 10. öld. Hún er talin samin löngu síðar, eða undir lok 13.
aldar, einum eða tveimur áratugum eftir blóðug átök Sturlungaaldar. Vænta
má að minning þeirra atburða liti þá sýn á mannlífið sem birtist í sögunni.1
Hún einkennist af stigmögnun átaka, þar sem hefnd leiðir til gagnhefndar
og ofbeldið nær hámarki í Njálsbrennu. Þó söguþráðurinn sé langur og
flókinn, má segja að flest atvik leiði beint eða óbeint til brennunnar að Berg-
þórshvoli og eftirmála hennar.
Í síðasta kafla Brennu-Njáls sögu, rétt fyrir sögulok, er sagt frá dauða Flosa
Þórðarsonar. Þótt hann beri ábyrgð á brennunni, og hafi því framið mikinn
glæp, fer höfundur mjúkum höndum um hann og lýsir honum þrátt fyrir allt
sem göfugum manni:
Þat segja menn, at þau yrði ævilok Flosa, at hann fœri utan þá er
hann var orðinn gamall, at sœkja sér húsavið, ok var hann í Noregi
þann vetr. En um sumarit varð hann síðbúinn. Rœddu menn um,
at vánt væri skipit. Flosi sagði, at væri œrit gott gǫmlum ok feigum,
ok sté á skip ok lét í haf, ok hefir til þess skips aldri spurzk síðan.2
1 Einar Ólafur Sveinsson, „Formáli“, Brennu-Njáls saga, Einar Ólafur Sveinsson gaf
út, Reykjavík: Íslenzk fornrit 12, 1954, bls. v–clxiii, hér bls. lxxxiv; cxii–cxx.
2 Brennu-Njáls saga, Einar Ólafur Sveinsson gaf út, Reykjavík: Íslenzk fornrit 12,
1954, bls. 463. Þar sem oft verður vitnað til þessarar útgáfu verður eftirleiðis vísað
til blaðsíðna í svigum á eftir tilvitnun.
Ritið
1. tbl. 21. árg. 2021 (23-36)
Ritrýnd grein
© 2021 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.21.1.2
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).