Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 23
TORFI H. TulINIuS
26
sjálfsmyndarkreppu íslenskra höfðingja um miðbik 13. aldar. Hvernig geta
þeir orðið það sem feður þeirra voru, það er höfðingjar, þegar svo margir
ungir menn, allir vel bornir og hæfir, keppa um stöðurnar?9
Í báðum ritgerðunum reyni ég að sýna að þeir sem settu sögurnar saman
eiga í boðskiptum við fyrstu viðtakendur sögunnar, bæði meðvitað og ómeð-
vitað, um hluti sem skipta máli á þeirra dögum. Enda er afskaplega mikil-
vægt, þegar reynt er að beita sálgreiningu á forna texta, að það sé gert að
undangenginni vandaðri greiningu á sögunni sem byggir á ítarlegri þekk-
ingu á samfélaginu og menningunni sem ólu hana af sér.
Eros og Þanatos
Dauðahvötin kemur seint inn í hugtakaforða Freuds. Fyrsta veigamikla rit-
smíðin um hana hefur þegar verið nefnd, „Handan vellíðunarlögmálsins“ frá
1920, en hún er einn af erfiðustu og tilraunakenndustu textum hans. Hann
heldur því fram að markmið alls lífs sé að leita dauðans og að ómeðvituð
dauðahvöt knúi lífveruna í þessa átt. Þessi hvöt, sem Freud talar reyndar um
í fleirtölu, er í sífelldu samspili við aðrar hvatir, lífshvatirnar, sem einnig eru
ómeðvitaðar.10
Dauðahvatirnar eru fyrir hendi í öllum lífverum og beinast út á við sem
árásarhneigð og inn á við sem masókismi. Aftur á móti er hlutverk lífsþránna
að leggja hömlur á eyðileggingarmátt dauðahvatanna. Fyrri hvatirnar kallar
hann Þanatos og hinar síðari Eros. Þetta líkan að hvatalífinu er ekki bara
tvískipt heldur líka gagnvirkt, því hvatirnar eiga í stöðugum átökum. Einn-
ig mætti segja að þær spili saman eða blandist, til dæmis í kynlífi sem krefst
þess að báðar hvatirnar séu til staðar. Af hvatahópunum tveimur er Eros
sýnilegri, en þó er Þanatos ávallt að verki, en baksviðs. undantekningu frá
þessu má finna í krísum þegar ástríður leysast úr læðingi. Þá gerir Þanatos
meira vart við sig, yfirleitt sem árásarhneigð en einnig sem vilji til að deyja.
Þessi losun ástríðnanna tengist því sem Freud kallar Triebentmischung og þýtt
9 Torfi H. Tulinius, „Hamlet í Helgafellssveit. Samræður um samræður við söguöld“,
Greppaminni. Rit til heiðurs Vésteini Ólasyni sjötugum, margrét Eggertsdóttir, Árni
Sigurjónsson, Guðrún Ása Grímsdóttir, Guðrún Nordal og Guðvarður már
Gunnlaugsson gáfu út, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2009, bls. 423–435.
10 Í framhaldi af þessu réðst Freud í allsherjar endurskoðun á hugmyndum sínum um
formgerð sálarlífsins sem hann skipti eftirleiðis í það, sjálf og yfirsjálf (þýs. Es, Ich
og Über-Ich) og setti síðar fram í ritgerðinni um „Sjálfið og þaðið“ sem kom fyrst
út 1923. Sigmund Freud, „Sjálfið og þaðið“, Ritgerðir, Sigurjón Björnsson þýddi og
ritaði inngang, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002, bls. 237–317.