Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 27
TORFI H. TulINIuS
30
óvenjulegt. Það ber með sér jákvæða merkingu en hér notar Gunnar það
með „feigð“, það er nálægð dauðans. Þetta er eina tilvikið sem ég hef fundið
í fornsögunum þar sem orðtakið er notað í tengslum við yfirvofandi dauða
og eykur á þá tilfinningu að viðhorf Gunnars til eigin dauða sé fremur já-
kvætt. Sú spurning gerist áleitin hvers vegna Gunnar hefur þessa afstöðu.
Gunnar er flókin sögupersóna. meiri bardagamann getur varla um í
fornum sögum en hann er einnig friðsamur og leggur sig fram um að forð-
ast öll átök, þótt hann neyðist til að verja sæmd sína þegar leitað er á hann.
Þetta á við til dæmis þegar Otkell og Skammkell bera út gróusögur um hann
(136). Yfirleitt sýnir hann stillingu en það kemur fyrir að hann sleppi fram
af sér beislinu þegar hann á í vopnaviðskiptum. Þótt hann drepi marga, upp-
sker hann af því enga ánægju: „Hvat ek veit, segir Gunnar, hvárt ek mun því
óvaskari maðr en aðrir menn sem mér þykkir meira fyrir en öðrum mönnum
at vega menn“ (139).
Þrátt fyrir góða sjálfsstjórn, er Gunnar maður sterkra tilfinninga. Til
dæmis er oft sagt frá því að hann reiðist, en hann er einnig vinfastur með
eindæmum, einkum þegar Njáll á í hlut. Auk þess er hann elskur að bræðr-
um sínum, Kolskeggi og Hirti. loks getur lostinn náð tökum á honum, eins
og þegar hann tekur fljótfærnislega og örlagaríka ákvörðun um að ganga að
eiga Hallgerði. Hrútur kallar þetta „girndarráð“ (87) og er ekki annað að sjá
en að það sé sömuleiðis skoðun Njáluhöfundar. Hér er vert að nefna aftur
hina frægu ákvörðun Gunnars um að snúa aftur til Hlíðarenda í stað þess að
halda í þriggja ára útlegð, sem hann hafði fallist á eftir víg Þorgeirs Otkels-
sonar. Hestur hans hefur hrasað á leiðinni niður að sjó og Gunnar stokkið
af baki. Hann snýr við og sér heimili sitt og landið í kring. Það hefur aldrei
virst honum jafn fagurt (182).
Skáld og fræðimenn hafa túlkað þetta atvik í sögunni á margvíslegan hátt
í gegnum árin. Allir þekkja hvernig Jónas Hallgrímsson útmálar Gunnar
sem sjálfstæðishetju sem vægir ekki fyrir óvinum sínum í kvæðinu Gunn-
arshólma. Aðrir hafa haldið fram að Gunnar eigi í raun við Hallgerði og að
„bleikir akrar ok slegin tún“ standi fyrir hár Hallgerðar og aðra kynferðis-
lega hlaðna þætti hennar.20 Fyrir mörgum árum vakti Hermann Pálsson
athygli mína á því að augu Gunnars beinast ekki einvörðungu að bænum
sínum, heldur líka að staðnum þar sem haugur hans verður orpinn síðar í
20 Helga Kress, „‘Óþarfar unnustur áttu‘. um samband fjölkynngi, kvennafars og
karlmennsku í Íslendingasögum“, Galdramenn. Galdrar og samfélag á miðöldum, Torfi
H. Tulinius gaf út, Reykjavík: Hugvísindastofnun, 2008, bls. 21–49, hér bls. 40.