Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 28
TIl mÓTS VIð DAuðANN Í BRENNu-NJÁlS SÖGu
31
sögunni, en talið er að hann hafi staðið milli bæjarins og markarfljóts (192
nmgr.). Hann nefndi einnig að aðeins væri einn annar staður í fornritum þar
sem sögupersóna segir landslag vera fagurt, en það er í Landnámabók, þegar
Hallsteinn Þengilsson kemur heim eftir langa fjarveru og fréttir af dauða
föður síns. Hann túlkar eigin blendnar tilfinningar með stöku sem segir að
fjallið fyrir ofan bæ þeirra feðga drúpi höfði úr sorg en að hlíðarnar hlæi við
honum sjálfum.21
Það er ekki ósennilegt að tilfinningar Gunnars á þessu augnabliki hafi
einmitt verið blendnar og að allar túlkanirnar sem nefndar hafa verið kunni
að eiga við. Hann gæti átt erfitt með að beygja sig undir dóminn á Alþingi og
fremur viljað ögra „grimmlegum fjendum“ sínum.22 Hann gæti einfaldlega
verið heimakær en einnig viljað halda áfram að njóta Hallgerðar, sem enn
vekur girnd hans. Hann gengur af ásettu ráði í berhögg við ráð tveggja bestu
vina sinna, Njáls og Kolskeggs, sem hafa báðir sagt að hann muni deyja virði
hann ekki sáttina um að fara af landi brott í þrjú ár. Gunnar er maður mikilla
og mótsagnakenndra ástríðna, en honum er ekki vel við þessar ástríður og
hann er aldrei ánægðari en eftir að hann hefur losnað undan þeim og situr
einn en kátur í haug sínum.
Það er eftirtektarvert að sagan tengir oftar en einu sinni saman girnd og
vilja til að deyja. Þorgrímur og Þórir, Austmennirnir sem Gunnar vegur,
vita að þeir muni deyja en eru tilbúnir að fara að Gunnari vegna þess að
þeir girnast Guðrúnu, dóttur Egils. Hún er „kvenna kurteisust“ og kölluð
„náttsól“ sem einnig vekur hugrenningartengsl við dauðann (147; 155; 160).
Ef til vill er það engin tilviljun að Þorgrímur er fyrsti maðurinn sem Gunn-
ar vegur í lokaorrustunni (187). með því er hugsanlega verið að gefa í skyn
hliðstæðu milli þessara tveggja manna sem báðir leggja sig í lífshættu knúðir
af ástríðufullri þrá til fallegrar konu.
Það er einnig ýjað að því að Þjóstólfur kunni að stýrast af kynferðislegri
ást á Hallgerði þegar hann verður Glúmi að bana. Áður hafði hann haft
í flimtingum að Glúmur væri að „brölta á maga Hallgerði“ (49). Það er í
samræmi við kenningu Freuds að náin tengsl séu milli girndar og dauða-
hvatanna: Eros þjónar Þanatosi.
21 Íslendingabók. Landnámabók, útgefandi Jakob Benediktsson, Reykjavík: Íslensk
fornrit 1, 1986, bls. 272.
22 Jónas Hallgrímsson, „Gunnarshólmi“, Ljóð og lausamál, Ritverk Jónasar
Hallgrímssonar 1. b., ritstjórar Haukur Hannesson, Páll Valsson og Sveinn Yngvi
Egilsson, Reykjavík: Svart á hvítu, 1989, bls. 79.