Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 34
Björn Þorsteinsson
Látið flæða
Deleuze og Guattari
andspænis Ödipusarlíkani Freuds
Alkunna er hvernig skuggi Sigmunds Freuds hvíldi yfir franskri heimspeki
langt fram eftir tuttugustu öldinni, og hvílir enn. Franskir hugsuðir af
öllum stærðum og gerðum töldu sér skylt og raunar nauðsynlegt að takast
á einhvern hátt á við arfleifð sálgreiningarinnar, þessarar nýju aðferðar til
að glíma við samband manns og heims sem mótaðist í skrifum Freuds og
fylgismanna hans á fyrstu áratugum aldarinnar. Sá skóli í heimi hugmynd-
anna sem kenndur hefur verið við formgerðarhyggju og eftirleik hennar –
strúktúralismi og póst-strúktúralismi – fór ekki varhluta af þessari nálægð
við Freud. Óhætt er að fullyrða að gildur þáttur í höfundarverki hugsuða á
borð við Jacques Derrida, Michel Foucault, Juliu Kristevu, Luce Irigaray,
Jean-François Lyotard, Claude Lévi-Strauss, Gilles Deleuze og Félix Gu-
attari hafi snúist um gagnrýna úrvinnslu sálgreiningarinnar. Í þeirri sögu
er Freud reyndar ekki eina aðalpersónan sálgreiningarmegin – sjálfskipaður
eftirmaður hans, Jacques Lacan, er þar einnig afar fyrirferðarmikill. Segja
má að Lacan hafi útfært kenningar Freuds á þann veg að þær færðust allar
heldur í hugvísindaátt, og fjarlægðust um leið þann (raun)vísindalega leik-
völl sem Freud dreymdi lengi vel, eða jafnvel alla ævi, um að yrði vettvangur
sálgreiningarinnar.1
Í þessari grein verður sjónum beint að þætti hins umdeilda höfundapars
Deleuze og Guattari í umræddri sögu. Til grundvallar verður fyrst og fremst
hið kynngimagnaða verk tvíeykisins Antí-Ödipus. Kapítalismi og kleyfhugasýki
1 Sbr. til dæmis Shoshana Felman, „Handan Ödipusar. Dæmisaga sálgreiningarinn-
ar“, Alda Björk Valdimarsdóttir þýddi, Ritið 3: 2/2003, bls. 133–163.
Ritið
1. tbl. 21. árg. 2021 (37-58)
Ritrýnd grein
© 2021 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.21.1.3
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).