Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Qupperneq 35
BJÖRn ÞORSTeInSSOn
38
I.2 Markmiðið er að varpa ljósi á vægðarlausa gagnrýni Deleuze og Guattari
á hið nafntogaða Ödipusarlíkan Freuds. Glímt verður við spurningar á borð
við þessar: Hverju lýsir dramað um Ödipus í meðförum Freuds, hverjum er
sú lýsing ætluð, hvenær er hún gild og til hvers er hún eiginlega þegar upp
er staðið? Að baki býr spurningin um það, hvers dulvitundin er megnug og
í þágu hvers hún starfar – lífsins eða dauðans.
nánar tiltekið verður fengist við þessar spurningar á þann hátt að fyrst
verður brugðið upp meginatriðunum í kenningu Freuds um Ödipusarduld-
ina og endurtúlkun Lacans á henni. Í framhaldinu verður hugað ögn nánar
að greinargerð Freuds fyrir hvatalífinu, einkum hvað varðar það samband
dauðahvatar og lífshvata sem hann tók að móta hugmyndir um á öðrum ára-
tug tuttugustu aldar og varð að helsta ásteytingarsteininum í rimmu hans við
Carl Gustav Jung. Að því búnu vendum við okkar kvæði í kross og beinum
sjónum að Deleuze og þeim kennilega grundvelli sem hann finnur hjá Spi-
noza, nánar tiltekið í höfuðriti hans Siðfræði. Að þeirri umræðu afstaðinni
kemur röðin loks að sjálfri gagnrýni Deleuze og Guattari á kenninguna um
Ödipusarduldina. Þar verður varpað ljósi á ástæður þess að þeir telja Ödip-
usarlíkanið þjóna borgaralegu siðferði sem stendur andspænis róttækri hug-
mynd um dulvitund og hvatalíf. Í stað bælingar og kúgunar láta Deleuze og
Guattari sig dreyma um, og móta hugmyndir um, líf sem óhætt virðist að
kenna við frjálst flæði – flæði hins dulvitaða, eða líkamlega, eða efnislega,
eftir því hvernig á það er litið; flæði sem kenna má, eins og koma mun í ljós,
við sakleysi verðandinnar.
Ödipus sóttur (heim):
Faðir, móðir og dulmagn bernskunnar
Varla er þörf á að fara hér mörgum orðum um kenningu Freuds um Ödip-
usarduldina.3 Kjarninn í hugmyndinni er sá að nýfætt barn stendur fyrst
um sinn í afar nánum tengslum við móðurina. Síðar rennur það upp fyrir
barninu að faðirinn hefur einnig ákveðnu hlutverki að gegna í þeim litla
2 Gilles Deleuze og Félix Guattari, L’Anti-Œdipe. Capitalisme et schizophrénie I, París:
Minuit, 1973, 1. útgáfa 1972.
3 Freud setur umrædda kenningu fram á skorinorðan hátt strax í upphafi fræðaferils
síns um aldamótin 1900 (sjá Sigmund Freud, Draumaráðningar, Sigurjón Björnsson
þýddi, Reykjavík: Skrudda, 2010, bls. 198–199) og endurtók þá framsetningu 1923
í lykiltextanum „Sjálfið og þaðið“ (sjá Sigmund Freud, „Sjálfið og þaðið“, Ritgerðir,
Sigurjón Björnsson þýddi, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002, bls. 237–
296, hér bls. 265 og áfram).