Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 41
BJÖRn ÞORSTeInSSOn
44
eða dauðahvötum; togstreitan sem einkennir sjálfið, hvatablandan görótta,
er sjálft líf hennar. Að vísu hlýtur að koma að því að dauðahvatirnar ná yfir-
höndinni og líftóran skreppur úr skepnunni – því að eins og áður kom fram
býr dauðahvötin í efninu í líki viðleitninnar til að útrýma lífinu. á þennan
hátt merkir hugtakið um dauðahvötina hjá Freud þá staðreynd að allt er
dauðlegt sem lífsanda dregur. Lífið er þá eftir sem áður togstreita lífshvata
og dauðahvata, varðveislu og tortímingar, en allt ber það að sama brunni;
„markmið alls lífs [er] dauði“ eins og Freud orðar það í „Handan vellíðunar-
lögmálsins“.18 Í þeim skilningi fer nirvanalögmálið með sigur af hólmi að
lokum, bæði þegar líf einstaklingsins er annars vegar og sjálfsagt einnig hvað
lífið almennt – á jörðu eða í alheiminum – varðar. en á meðan lífsandinn
blaktir í skepnunni sækist hún eftir því að losa spennu og öðlast þá vellíðan
sem því fylgir. eftir sem áður verður ekki annað séð en að þessi viðleitni sé
af ættmeiði tortímingaraflanna (hvort sem þau eru kennd við vellíðunar-
lögmál, dauðahvöt eða nirvanalögmál), því óhófleg neysla endar með hinni
fullkomnu spennulosun – dauðanum sjálfum. Raunveruleikalögmálið sér
aftur á móti, og enn sem fyrr, til þess að tortímingunni er hvað eftir annað
slegið á frest og úr verður sú „krókótta leið til dauðans“ sem Freud talar um
í „Handan vellíðunarlögmálsins“.19
Þannig táknar hugmynd Freuds um raunveruleikalögmálið það eftirlit
og þá stjórnun sem lífverunni er nauðsynleg til að komast af (eins lengi og
kostur er). eins og áður sagði felst þetta verkefni lífverunnar í fyrsta lagi í
því að hamla gegn þeim óbeisluðu og hamslausu hvötum sem stöðugt berast
upp úr þaðinu. Í öðru lagi felst verkefnið í að fara sér ekki að voða í þeim ytri
heimi sem lífveran þarf að semja sig að, þvert á kröfur þaðsins um að fá allt
sem því þóknast, sem reynast þar með einnig vera á bandi eyðingaraflanna.
Í „Orkunýtingarvanda masókismans“ beinir Freud sjónum að þessu síðara
atriði, og tengir það hugtakinu um samvisku eða siðgæslu. Samviskan er
raunveruleikalögmálið að verki innan sjálfsins. Sá einstaklingur sem á sér
enga samvisku, er samviskulaus, hlýtur að brjóta gegn lögum og siðum sam-
félagsins, skráðum eða óskráðum, og fá makleg málagjöld í framhaldi af því.
Þannig verður hlutverk samviskunnar að gera einstaklingnum ljóst hvaða
afleiðingar þær gjörðir hefðu í för með sér sem hann fýsir að hrinda í fram-
kvæmd á grundvelli þeirra djúpstæðu eiginhagsmuna sem þaðið heldur stöð-
ugt á lofti. Rödd samviskunnar verður rödd lögmálsins og skynseminnar – sú
rödd sem kennd er við föðurinn í Ödipusardramanu. Hún verður líka rödd
18 Sigmund Freud, „Handan vellíðunarlögmálsins“, bls. 121.
19 Sama stað.