Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 52
LáTIð FLæðA
55
öðrum þræði verufræðilegur blasir einnig við ómengaður vilji þeirra til að
bæta meðferð þeirra sem þjakaðir eru af þessum sjúkdómi. Grunnafstaða
þeirra kemur fram í þeirri staðhæfingu að kleyfhugasýki megi ekki (eða eigi
ekki að) rekja til andstöðu eða mótþróa hans gagnvart Ödipusi heldur þvert
á móti til þess að reynt er að þröngva honum til að játast Ödipusi.68 Þann-
ig birtist sú bæling sem Ödipusarlíkaninu er ætlað að koma til leiðar, svo úr
verði nýtur samfélagsþegn, sem samfélagsleg kúgun. einn helsti ljóðurinn
á ráði sálgreiningarinnar er að hún gengur í lið með þessari kúgun fyrir at-
beina fylgispektar sinnar við Ödipus; eða, svo þetta sé orðað á annan veg,
hún á ríkan þátt í að breiða yfir togstreituna sem ríkir milli samfélagsfram-
leiðslunnar og langanaframleiðslunnar.69
Staðreyndin er nefnilega sú að kleyfhuginn lætur sig vöntunina, sem
Ödipus boðar honum, engu varða. Löngun hans er frumlæg og ósnert í
þeim skilningi að honum er einskis vant.70 Hún snýst ekki um að öðlast
völsann eða komast aftur í faðm móðurinnar eða jafnvel inn í móðurlífið –
hún er heill og óskiptur sköpunarkraftur sem er einskis varnað. Vöntunin
kemur eftir á, hún er vissulega til sem félagslegt fyrirbæri, en hún er ekki
upprunaleg: hún er tilfallandi afurð Ödipusarlíkansins.
Þannig starfar Ödipusarvæðingin sem sálgreiningin leggur á langanavél-
arnar, með heila fylkingu fagstétta, og jafnvel lögregluna, sér til fulltingis.
Markmiðið er að koma böndum á langanirnar, og búa þær úr garði – fram-
leiða þær – þannig að þær trufli ekki stöðuga endurframleiðslu samfélags-
gerðarinnar. Dulvitundin er framleiðsla, hún er verksmiðja, segja Deleuze og
Guattari, en samfélagið vill breyta þessari verksmiðju í leikhús þar sem sama
stykkið er sett upp æ ofan í æ: Ödipus, það er pabbi-mamma-ég. Þannig er
broddurinn dreginn úr umbreytingamættinum og honum vísað inn á svið
tákna og ímynda, allt í þjónustu ríkjandi ástands. Dulvitundin var „hin mikla
uppgötvun sálgreiningarinnar“,71 en þessi uppgötvun reyndist óþolandi,
henni varð að verjast, það varð að pakka henni inn, og til þess var Ödipus
kallaður, eða fundinn upp. Í stað framleiðslunnar var dulvitundinni kennt að
tjá sig – og úr varð það endalausa blaður um kynlíf og tengd efni sem Fo-
ucault gerir að umtalsefni í fyrsta bindi Sögu kynlífsins.72 Þannig var komið
68 Sbr. sama rit, bls. 108.
69 Sbr. sama rit, bls. 63–64.
70 Sbr. sama rit, bls. 32–36.
71 Sama rit, bls. 30–31.
72 Sjá Michel Foucault, „Bælingartilgátan“, Björn Þorsteinsson þýddi, Alsæi, vald og
þekking, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun, 2005, bls. 180–211.