Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 59
SIGRÚN ALBA SIGURðARDóTTIR
62
að afskrifa Trier sem kvenhatara og myndir hans sem fasísk viðbrögð karl-
manns sem eigi í erfiðu sambandi við móður sína.9
Það er vel hugsanlegt að Trier eigi í erfiðu sambandi við móður sína. Það
kann einnig að vera að hann hafi persónulega reynslu af sálrænum áföllum
og að samband hans við konur hafi verið mótsagnakennt og jafnvel á köflum
hatursfullt.10 Það skiptir hins vegar ekki máli fyrir okkur sem áhorfendur
nema að því leyti sem Trier færir þessa reynslu sína yfir á kvikmyndaformið
og vinnur þar úr henni með þeim hætti að hún færir okkur nýjan skilning
á veruleikanum. Í viðtali við blaðamann The Observer sumarið 2009 sagði
Trier frá því hvernig hann hefði átt við þunglyndi að stríða þegar hann skrif-
aði handritið að Andkristi og hvernig hann notaði skrifin til að vinna sig
upp úr þunglyndinu.11 Í ljósi þessa kemur kannski ekki á óvart að Lars von
Trier hefur lýst því yfir að hann finni til mikillar samkenndar með helstu
kvenpersónu myndarinnar,12 en í greiningu minni legg ég út af því að kvik-
myndin Andkristur fjalli fyrst og fremst um möguleika manneskjunnar á því
að vinna úr trámatískum atburði sem ekki bara særir viðkomandi heldur um-
turnar jafnframt þeim forsendum sem hann eða hún gengur alla jafna út frá.
Þegar ég hafði loksins sigrast á óttanum við að sjá allan „viðbjóðinn“ sem
mér hafði verið sagt að Andkristur fjallaði um þá áttaði ég mig á því, sem ég
í raun vissi þá þegar, að Andkristur er ekki einföld birtingarmynd kvenhaturs
sem hefur það helst að markmiði að kvelja áhorfandann með viðbjóðslegum
atriðum þar sem ofbeldi og kynlíf fléttast saman. Ég áttaði mig líka á því
að ég átti mér undankomuleið frá mesta viðbjóðinum. Það var nefnilega
ósköp auðvelt að loka augunum þegar sjónræn birtingarmynd ofbeldisins
varð óbærileg. Hið sjónræna áreiti er vissulega mikilvægur þáttur í kvik-
myndinni og Trier fer með áhorfandann út á ystu brún hins mögulega þegar
hann sýnir í nærmynd hvernig kona sker af sér snípinn og borar gat í fótlegg
eiginmanns síns en þrátt fyrir að Trier sé valdamikill hefur hann ekki fulla
9 Mårten Blomkvist, „Manliga kräk. Lars von Triers filmer handlar om mer än onda
kvinnor“, Dagens Nyheter, 7. ágúst 2009, sótt 25. mars 2021 af https://www.dn.se/
kultur-noje/kulturdebatt/manliga-krak-lars-von-triers-filmer-handlar-om-mer-an-
onda-kvinnor/.
10 Peter Schepelern, Lars von Triers Film. Tvang og befrielse, Kaupmannahöfn: Rosin-
ante, 2000, sjá einkum bls. 9–13.
11 Sean O‘Hagan, „Interview: Lars von Trier“, The Observer, 12. júlí 2009, sótt 25.
mars 2021 af https://www.theguardian.com/film/2009/jul/12/lars-von-trier-inter-
view.
12 Sama rit og Lilian Munk Rösing, „At frigøre (sig fra) mors begær. Om Lars von
Triers Antichrist“, Slagmark 61/2011, bls. 153–164, sótt 26. október 2020 af https://
tidsskrift.dk/slagmark/article/view/104065/153007.