Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 60
AFGERANDI AUGNABLIK
63
stjórn á áhorfandanum. Kvikmyndin er þess eðlis að við getum alltaf lokað
augunum og látið ímyndaraflið taka völdin. Kvikmyndin er að því leyti ólík
raunveruleikanum. Hún er fyrst og fremst saga og í þessu tilviki er hún öðru
fremur táknsaga sem gerir hið óbærilega bærilegt fyrir áhorfandann með
því að sveipa raunina táknum hins óraunverulega. Þannig minnir hún okkur
stöðugt á að við lifum ekki af nema við höfumst jafnhliða við á sviði hins
raunverulega og sviði hins ímyndaða.13
Í þessari grein ætla ég að skoða kvikmyndina Andkrist út frá kenningum
sálgreiningarinnar um tráma og afgerandi augnablik og skrifum
heimspekinganna Henris Bergson og Pauls Ricoeur um minningar, upplifun
og reynslu. Ég nálgast viðfangsefnið út frá þeirri hugmynd að Andkristur sé
táknsaga sem gerir hið trámatíska viðráðanlegt.14 Andkristur er fyrir full-
orðna eins og Hans og Gréta er fyrir börn: ákveðin aðferð til að takast á við
það sem maður óttast mest.
Afgerandi augnablik
Andkristi er skipt upp í þrjá kafla sem bera heitin sorg, sársauki og örvænting
(e. grief, pain, despair) ásamt formála og eftirmála sem mynda umgjörð utan
um meginkaflana þrjá. Formálinn og eftirmálinn eru í svarthvítu og greina
sig þannig með afgerandi hætti frá draumkenndri og myrkri litanotkun í
meginköflunum.
Í formálanum, upphafsatriði myndarinnar, njóta foreldrarnir ásta, barnið
13 Þess má geta að eftir að hafa legið yfir táknsögunni sem kvikmyndin felur í sér
og horft á brot úr kvikmyndinni margoft var ég farin að geta horft á myndina alla
án þess að loka augunum og er það ágætt dæmi um hvernig táknkerfið verður
einskonar hjúpur milli raunarinnar og einstaklingsins sem breytir upplifun sinni í
merkingarbæra reynslu. Með hugtakinu rauninni er verið að vísa óbeint í kenningar
Jacques Lacan. Sjá nánar í neðanmálsgrein 44.
14 Danski bókmenntafræðingurinn Lilian Munk Rösing hefur fjallað um Andkrist sem
táknsögu. Hún skoðar kvikmyndina út frá kenningu Freuds um frumatburðinn og
Ödipusarduldina. Frumatburðurinn fjallar um barnið sem verður vitni að samförum
foreldra sinna, atburð sem það hefur takmarkaðar forsendur til að skilja en færir því
mögulega þá tilfinningu að tilvist þess skipti engu máli á þeirri stundu sem um ræðir.
Tilvist barnsins, líf þess og dauði, er tilviljun ein. Í formálanum að Andkristi sjáum
við hvernig barnið verður vitni að samförum foreldra sinna, hvernig það upplifir
frumatburðinn, stuttu áður en það deyr. Sjá Rösing, „At frigøre (sig fra) mors be-
gær“ og Lilian Munk Rösing, „Det faldne barn“ Information, 20. maí 2009, sótt 22.
mars 2011 af http://www.information.dk/191680. Um merkingu frumatburðarins í
lífi barns má lesa hjá Sigmund Freud í greininni „Úr sögu bernskutaugaveiklunar“,
Sjúkrasögur, Sigurjón Björnsson þýddi, ritaði inngang og skýringar, Reykjavík: Hið
íslenska bókmenntafélag, 2004, bls. 141–275.