Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 71
SIGRÚN ALBA SIGURðARDóTTIR
74
Með öðrum orðum, við verðum í krafti ímyndunaraflsins og draumanna að
stíga skrefið út úr losuninni og inn í úrvinnsluna.
Segjum sem svo að úrvinnslan takist, að einstaklingnum takist að breyta
afgerandi augnabliki í afmarkað augnablik og staðsetja það í ákveðnu tíma-
legu ferli og í ákveðnu samhengi; að einstaklingurinn hafi þannig náð að
endurheimta hið trámatíska í einhverjum skilningi og koma því um leið fyrir
innan tungumálsins, að hann hafi náð að breyta upplifun í reynslu. Er þá
ekki eitthvað sem eftir stendur? Jú, hin líkamlega skynjun, upplifun okkar í
og með heiminum, verður aldrei fyllilega færð í orð. Þegar trámatískri upp-
lifun er breytt í reynslu sem miðlað er með frásögn verður alltaf eitthvað
eftir. Eitthvað sem er handan tungumálsins: raunin sjálf.
Raunin (fr. le réel, e. the real) er hugtak sem Jacques Lacan innleiddi í
sálgreininguna um miðja tuttugustu öld og hefur haft mótandi áhrif á þá
aðferðafræði sem mótast hefur á síðustu árum og miðar að því að beita að-
ferðum sálgreiningar til að greina hugmyndafræði, valdasamspil og ríkjandi
viðhorf til sannleikans í ólíkum samfélögum. Lacan gerir í þessu sambandi
greinarmun á rauninni (fr. le réel) og raunveruleikanum (fr. la réalité). Raunin
er tilvistin sjálf, bæði sú tilvist sem maðurinn skynjar og sú tilvist sem er
óháð manninum, en raunveruleikinn er það net orða og tákna sem maðurinn
beitir til að fjalla um, skilja og skilgreina tilvistina.43 Þegar við leitumst við
að skilgreina raunveruleikann verður alltaf eitthvað eftir; þetta eitthvað er
raunin. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek hefur lýst þessu svo:
Bilið milli fegurðar og ljótleika er […] einmitt bilið sem skilur
raunveruleikann frá Rauninni: raunveruleikinn grundvallast á
þeirri lágmarksupphafningu sem hugveran þarfnast til að halda
hryllingi Raunarinnar í skefjum.44
43 Lacan skilgreindi hugtak sitt um raunina í fyrirlestrinum „Le symbolique, l’imagina-
ire et le réel“ sem hann flutti árið 1953. Ég byggi greiningu mína á enskri þýðingu á
fyrirlestrunum, Jacques Lacan, The Four Fundamental Concepts of Psychoanalysis, Jac-
ques-Alain Miller ritstýrði, Alan Sheridan þýddi, London: Vintage, 1998. Sjá einnig
umfjöllun um raunina í hinum lacaníska skilningi í grein Dagnýjar Kristjánsdóttur,
„Ástin og listin gegn þunglyndinu“, í Julia Kristeva, Svört sól. Geðdeyfð og þunglyndi,
ólöf Pétursdóttir þýddi, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands og
Háskólaútgáfan, 2008, bls. 13–45, hér bls. 27–30.
44 Slavoj Žižek, óraplágan, Haukur Már Helgason þýddi, Reykjavík: Hið íslenska bók-
menntafélag, 2007, bls. 176. Žižek fjallar einnig um þennan greinarmun raunarinnar
og raunveruleikans (hins táknræna veruleika) í bókinni Interrogating the Real, Lond-
on og New York: Continuum, 2006, sjá til dæmis útskýringar hans á bls. 190–191.