Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 74
AFGERANDI AUGNABLIK
77
Vöknun
Hinu trámatíska augnabliki má líkja við rof sem veldur því að forsendurnar
sem við göngum út frá þegar við skynjum og skilgreinum veruleikann breyt-
ast. Trámanu má einnig líkja við einskonar opnun sem verður þegar raunin
sjálf brýst, algjörlega óvænt og án þess að við fáum nokkru um það ráðið, í
gegnum þann táknheim sem við köllum raunveruleika og göngum venjulega
út frá sem gefnum. Í gegnum hinn trámatíska atburð komumst við í tengsl
við raunina sjálfa. Það er líkt og við sjáum inn í annan heim, líkt og við
skynjum hið viðkvæma en afgerandi augnablik sem skilur milli lífs og dauða.
Kvikmyndin sem sjónrænn miðill býr yfir þeim eiginleika að geta bent á
raunina án þess að smætta hana niður í ákveðið kerfi. Lars von Trier tekst á
við það verkefni að miðla hinu ósagða með myndmáli sem er í senn draum-
kennt og ágengt í snertingu sinni við hina líkamlegu og allt að því áþreifan-
legu þjáningu sem sögupersónurnar ganga í gegnum. Konan í kvikmyndinni
kemst aldrei upp úr því svartholi sem hefur sogað hana til sín. Eiginmaður-
inn snýr aftur á móti til baka í ástandi sem við vitum ekki glögglega hvort
tilheyrir svefni eða vöku. Kannski má einna helst líkja því við vöknun. Hann
hefur yfirgefið þunga næturinnar en ekki tekið á móti birtu dagsins. Hann
er eins og faðirinn í dæmisögu Freuds sem vaknar upp við að nýlátinn sonur
hans stendur við rúmið hans í draumi:
Faðir hafði vakað við sjúkrabeð barnsins síns sólarhringum saman.
Eftir að barnið var dáið lagðist hann fyrir í næsta herbergi en skildi
dyrnar eftir opnar svo að hann sæi inn í herbergið þar sem barnið
lá á líkbörunum og voru stór kerti umhverfis það. Gamall maður
hafði verið fenginn til að vaka yfir líkinu og sat hann hjá því og fór
með bænir. Eftir að faðirinn hafði sofið í nokkrar klukkustundir
dreymdi hann að barnið stæði við rúmið hans, gripi í handlegg hans og
hvíslaði í ásökunarrómi: „Pabbi, sérðu ekki að ég er að brenna.“ Hann
hrökk upp, sá skæra birtu úr næsta herbergi, flýtti sér þangað og
sá að öldungurinn hafði sofnað og að kviknaði hafði í líkklæðunum
frá kerti sem hafði dottið á þau og annar handleggur ástkærs barns
hans hafði brennst.47
47 Sigmund Freud, Draumaráðningar, Sigurjón Björnsson þýddi, Reykjavík: Skrudda,
2010, bls. 369. Mín skáletrun.