Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 83
DaGNý KRISTJáNSDóTTIR
86
óttinn er ekki markmið fantasíunnar en hún getur engu að síður átt margt
sameiginlegt með hrollvekjunni. Bókmenntafræðingurinn Tzvetan Todorov
taldi trúverðugleika frásagnarinnar vera lykilatriði ef skilja ætti á milli þessara
bókmenntagreina. Ef uppruni óttans væri skýranlegur og „raunverulegur“
væri sagan hrollvekja en ef svo væri ekki væri sagan fantasía.16
Veruleiki og ímyndun fljóta gjarna saman bæði í hrollvekjunni og fant-
asíunni og mörk geta verið óskýr.17 Þetta kemur vel fram hjá Farah Mendle-
sohn sem flokkar bókmenntalegar fantasíur í fjórar megintegundir eftir
sambandi þeirra við veruleikann:
1. Gáttar-leitar-fantasíur (e. portal-quest fantasy) þar sem farið er gegnum ein-
hvers konar hlið yfir í annan heim og til baka aftur, eins og í Lísu í Undralandi og
Harry Potter bókunum. Stundum kallaðar lág-fantasíur (e. low fantasies).
2. Altækar fantasíur (e. immersive fantasies) þar sem öll sagan gerist í ímynd-
uðum heimi, þannig eru sígild alþýðuævintýri og nútímaævintýri eins og
Hringadróttinssaga. Stundum eru sögur af þessu tagi kallaðar há-fantasíur (e.
high fantasy).
3. Innrásar-fantasíur (e. intrusive fantasies) þar sem hliðarheimur gerir innrás
í veruleikann, raskar jafnvægi og veldur usla. Dæmi gæti verið innrás geim-
veranna í Vetrarfríi Hildar Knútsdóttur (2015).
4. Fantasíur á mörkum furðu og veruleika (e. liminal fantasies) standa næst
hryllingssögunum og geta reynt á þanþol lesandans. Þar blandast furðan inn
í hversdagslíf aðalpersónu, eins og í Rottunum eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur
(2018), og sáð er efa um hvað sé veruleiki og hvað ímyndun. Það vekur óhug
lesenda ef mörkin milli þessa verða mjög óskýr og honum er haldið í þeirri
stöðu.18
Í raun og veru má halda því fram að skáldsagan Kóralína falli undir þrjár
formdeildir fantasía hér að ofan, það er allar nema altækar fantasíur en sú
formdeild útilokar hinar þrjár í strangasta skilningi.19 Ef Kóralína er lesin frá
umhverfi. […] Hið illa er innra með okkur. Því eldri sem ég verð, þeim mun síður
tel ég að það séu til einhver utanaðkomandi djöfulleg áhrif; þetta kemur frá fólki.“
Sama rit, bls. 208.
16 Tzvetan Todorov, The Fantastic. A Structural Approach to a Literary Genre, Ithaca:
Cornell University Press, 1975, bls. 24–40. Todorov útfærir þessa skilgreiningu
nánar í bók sinni en lykilatriði í kenningu hans eru viðbrögð lesenda, hik og efi and-
spænis hinu yfirnáttúrlega.
17 Sjá t.d. Matthew Grenby, Children’s Literature, Edinburgh: Edinburgh University
Press, 2008, bls. 145–146.
18 Farah Mendlesohn, Rhetorics of Fantasy, Middletown CT: Wesleyan University
Press, 2008, bls xvii-xxv.
19 Ef heimur sögunnar er heilsteyptur furðuheimur eru allar furður hans veruleiki þess