Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 93
DaGNý KRISTJáNSDóTTIR
96
hina móðurina „ógeðslega, vonda og skrýtna“ upp í opið geðið á henni og
segir: „Þú ert ekki mamma mín“ (85).
Hin móðirin færist þannig smám saman í flokk þeirra ófreskja sem börn
hræðast hvað mest en það eru mannæturnar. Þær eru fjölmennar í barnabók-
um: Grýla, stjúpurnar í fjölmörgum ævintýrum svo sem Mjallhvíti, nornin
í Hans og Grétu, tröll og risar eins og í Jóa og baunagrasinu, úlfurinn í Rauð-
hettu og svo mætti lengi telja. Kóralína hafnar þessari hryllingsmóður sem
sækist eftir lífi hennar og upphafning hennar á sinni raunverulegu móður
vex að sama skapi.41
Melanie Klein, sem hvað mest hefur skrifað um frumbernskuna og
munnstigið, segir að móðirin geti aldrei fullnægt öllum þrám ungbarnsins
sem sé of óþroskað til að samþykkja það og kljúfi móðurina í hina illu og
góðu móður. Í ófullnægju sinni þráir barnið að gleypa brjóstið eða móður-
ina alla en óttinn við gagnárás hennar og hefnd getur skapað ofsahræðslu
þess. Barnið þolir þetta ekki og varpar þannig upphaflegri árásargirni sinni
yfir á móðurina. Þetta telja Keeling og Pollard góða lýsingu á þeim sálrænu
átökum sem eiga sér stað í Kóralínu.42
Síðasti hluti Kóralínu gerist í „hinum hluta hússins“ þar sem hin móðirin
býr og hann verður æ ókennilegri og skelfilegri. Eftirmyndirnar af fólkinu
sem býr í raunverulega húsinu, hin Frökk, hin Jónka og hinn Bóbó afskræm-
ast og ummyndast fyrir augum Kóralínu og öll horfa þau á hana hungruðum
augum hinnar móðurinnar enda sköpunarverk eða ummyndanir hennar. Þar
sem Kóralína stendur í hinum garðinum, í gjörningahríð hinnar móður-
innar, fletjast allar útlínur út, trén verða illa gerðar klessur og húsið verður
fyrst eins og ljósmynd og svo eins og teikning eða skissa af húsi. Samt opnast
dyr þessa húss og Kóralína og kötturinn ganga inn. Lokaátök Kóralínu við
hina móðurina standa fyrir dyrum.
41 Þess má geta að í sögu Þórarins Leifssonar, Leyndarmálið hans pabba (2007) er það
faðirinn sem reynist mannæta, sjá nánar: Dagný Kristjánsdóttir, „Kannski á ófreskjan
líka börn. Leyndarmálið hans pabba eftir Þórarin Leifsson“, Tímarit Máls og menning-
ar 2/2008, bls. 123–129. Sjá einnig grein Elínar Bjarkar Jóhannsdóttur um mannát
í sömu sögu: „Í greipum mannætunnar. Menningarleg bannsvæði í Leyndar málinu
hans pabba eftir Þórarin Leifsson“, Tímarit Máls og menningar 3/2013, bls. 16–25.
42 Kara K. Keeling og Scott Pollard, „The Key is in the Mouth“, bls. 17–18. Melanie
Klein var upphaflega nemandi Karls abraham sem sálgreindi hana og hafði töluverð
áhrif á kenningar hennar.