Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 98
KóRaLÍNa OG MæðUR HENNaR
101
ákveður að skipta henni út fyrir aðra móður eins og börnin í „Nýju móður-
inni“, draugasögu Lucy Lane Clifford. En öfugt við þau sér hún að sér og
þegar hún stendur andspænis móðurófreskjunni sem hún sjálf hefur skapað
í árásargirni sinni og reiði veit hún að hennar eigin móðir er „nógu góð
móðir“. Þegar hana vantar herslumuninn upp á að loka dyrunum sem skilja
milli hinnar móðurinnar og hennar sjálfrar og skjólstæðinga hennar heyrir
hún hina raunverulegu móður sína segja: „Vel gert, Kóralína!“ Viðurkenn-
ing móðurinnar gefur dótturinni stolt og styrk til að ljúka sínu hættulega
verkefni og enda á lygnum sjó.50
Karen Coats endar grein sína „Between Horror, Humour, and Hope“
á því að segja að gotneskar sögur séu holl lesning fyrir börn sem búi við
sæmileg kjör. Það er því miður ekki alltaf hægt að fullyrða að þau hafi enga
raunverulega ástæðu fyrir ótta sínum en innri átök og ósigrar fylgja því ein-
faldlega að stækka og þroskast. Coats segir: „Vel gerðar hrollvekjur geta fyllt
upp í þessi göt, gefið óhlutstæðum, sálrænum ferlum áþreifanlega mynd,
haldið forboðinni hrifningu og áleitnum ótta þar sem börnin geta séð þau
og blandað við þau heilbrigðum skammti af húmor og von.“51
Ú T D R á T T U R
Kóralína og mæður hennar. Um vandkvæði
þess að skipta um móður í Kóralínu eftir Neil Gaiman
Í greininni er fjallað um nútímaævintýrið Coraline (2002). Kenningarammi sálgrein-
ingarinnar hefur verið áberandi í fræðilegri umræðu um þessa bók frá upphafi og
þessi grein er engin undantekning frá því. aðallega er byggt á kenningum Sigmunds
Freud um „hið ókennilega“ og Juliu Kristevu um „úrkastið“ auk femínískrar gagn-
rýni Barböru Creed á „the monstrous feminine“. Fjallað verður um samband mæðra
og dætra í bókinni og þroskasögu Kóralínu sem er ellefu ára telpa að brjótast undan
valdi móður sinnar. Sú uppreisn fer fram í stórkostlegri sviðsmynd þar sem „hin
móðirin“, illviljuð og gráðug, ræður ríkjum. Niðurstaða Kóralínu er að hin raun-
verulega móðir, „nógu góða móðirin“, sé allt sem telpa þarf.
50 „The good enough mother“ er móðir sem gætir þess að reyna EKKI að koma til
móts við allar þrár og kröfur barnsins heldur leyfir því að spjara sig sjálft eftir því
sem þroski þess leyfir. Sálgreinandinn Donald Winnicott sem var hallur undir við-
fangstengslakenningar Melanie Klein setti fram þessa kenningu.
51 Karen Coats, „Between Horror, Humour, and Hope“, bls. 91.