Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Blaðsíða 106
TIL TUNGLSINS OG TIL BAKA
109
það „sé ekki bara þrýstingur menningarinnar“ sem heldur aftur af fullnægju
okkar, heldur eitthvað í sjálfu eðli þess hvernig kynverund siðmenntaðra
manna starfar.25
Áður en kvikmyndin Hún er tekin til skoðunar er nauðsynlegt að skýra
hugtakið „hvatahagkerfi“ betur. Hagkerfið, sem einkennir ástarsambönd og
Freud segir frá í „Um narsisisma“ (1914), lýsir sambandi milli sjálfshvatar-
innar (e. ego-libido) og viðfangshvatarinnar (e. object libido). Grundvallaratriði
þess er að því meira sem önnur þeirra fær útrás, því mun meir gengur á hina,
og að sá sem elskar hefur „afsalað sér hluta af narsisma sínum“ og fær hann
aðeins aftur sé hann elskaður.26 Að vera ástfanginn „felst í ofurflæði sjálfslí-
bídóar yfir á viðfangið.“27
Samkvæmt Freud má rekja sjálfshvötina til upprunalegrar sjálfsbjargar-
hvatar sem sé mikilvæg í frumbernsku, en er síðar nauðsynlegt að beina að
hluta að ytri viðföngum.28 Dagný Kristjánsdóttir lýsir því svo í bók sinni
Kona verður til:
Smám saman, stig af stigi, byggist upp sálræn ófullnægja hjá nark-
issíska barninu sem verður til þess að það yfirvinnur sjálfhverfu
sína. Það stafar, samkvæmt Freud, af því að hver einstaklingur
ræður aðeins yfir ákveðnum forða af líbídói. Því minna sem maður
elskar aðra, þeim mun meira líbídó hverfist um manns eigið sjálf.
Líbídóið hleðst upp, spenna myndast og það vekur ekki vellíðan
heldur vanlíðan. […] Á grundvelli þessa klýfur Freud nú líbídóið,
eða orkuna sem knýr hvatirnar, í tvennt og talar um viðfangslíbídó
og sjálfslíbídó.29
Í upphafi eru þessar tegundir sálrænnar orku, sjálfshvötin og viðfangshvötin,
„saman sem narsismi“ – þetta er á narsisíska tímabilinu sem er einfaldara en
það sem á eftir kemur vegna þess að ytri viðföng eru, sem slík, ekki enn orð-
in hluti af skynjun okkar.30 Freud telur að raunverulega hamingjusamt ástar-
samband dragi dám af þessu tímabili, eigi sér hliðstæðu í aðgreiningarleysi
25 Sigmund Freud, Undir oki siðmenningar, bls. 47.
26 Sigmund Freud, „Um narsisma“, Ritgerðir, þýðandi Sigurjón Björnsson, Reykjavík:
Hið íslenska bókmenntafélag, 2002, bls. 17–55, hér bls. 26 og 51.
27 Sama heimild, bls. 53.
28 Sama heimild, bls. 26–27.
29 Dagný Kristjánsdóttir, Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir full-
orðna, Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun og Háskólaútgáfan, 1996, bls. 77.
30 Sigmund Freud, „Um narsisma“, bls. 27.