Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 113
GUðRÚN ELSA BRAGADóTTIR
116
virðist draga úr mætti Theodores, veikja sjálf hans.42 Samband þeirra nær
lægð sinni eftir röð auðmýkjandi samskipta sem fylgja í kjölfarið. Þegar þau
keyra um sveitina saman giskar Theodore á að það séu tvö þúsund tré um-
hverfis þau og skeikar þar um 34.000 stykki (í kjölfarið giskar Samantha í
gríni á að hann hafi tvær heilasellur). Samantha kynnir hann fyrir vini sínum,
afburðagreindu stýrikerfi sem býr yfir gervigreind byggðri á breska heim-
spekingnum Alan Watts (1915–1973), og bítur svo höfuðið af skömminni
með því að „fara afsíðis“ með Watts til þess að þau geti átt samskipti orða-
laust (e. post-verbally), án Theodores.
Í atriði sem byrjar á því að Theodore rembist við að lesa eðlisfræðibókina
Knowing the Known and Unknown in the Universe og hættir svo til að kvarta
við Samönthu um að hann verki í heilann við lesturinn, áttar Theodore sig
á því að hún er fjarverandi. Í fyrsta sinn er hún ekki til staðar. Hann fyllist
ofsafengnum ótta og hleypur út að leita að henni, eins og hann geti fundið
þessa líkamslausu veru í efnisheiminum, þangað til hann heyrir loksins rödd
Samönthu í eyranu. Í óöryggi sínu, eftir að hafa verið yfirgefinn, spyr Theo-
dore hvort hún tali við annað fólk á meðan hún talar við hann – og ef svo sé,
hvort hún sé þá ástfangin af einhverjum öðrum. Samantha viðurkennir að,
einmitt núna, eigi hún í samræðum við 8.316 manns og að hún sé ástfangin af
641 þeirra. Það sem byrjaði sem öruggt, narsisískt ástarsamband hefur um-
breyst á martraðarkenndan hátt í andstæðu sína. Eftir að hafa smám saman
helgað meir og meir af sjálfshvöt sinni Samönthu, áttar Theodore sig á því
að hann hefur einungis þegið brotabrot af henni á móti. Ástarviðfangið sem
hann hafði í fyrstu upplifað sem framlengingu á sjálfum sér hefur gert hann
að ofurlitlu viðhengi; hann er aðeins einn af hundruðum viðauka Hennar.43
42 Hér nota ég orðið „fallísk“ í lacanískum skilningi, það er til að vísa til veru sem
skortir ekki. Í fyrstu virðist Samantha deila þeirri sammannlegu upplifun með
Theodore að skorta, en það er einmitt sá skortur sem kveikir þrá hjá sjálfsverunni í
kenningum Lacans. Ekkert viðfang getur fullnægt þránni, enda er ekki um bókstaf-
legan skort að ræða, hann er einungis til innan „hins táknræna.“ Fallusinn er heldur
ekki til í bókstaflegum skilningi, heldur er hann tákn fyrir það sem bætir upp fyrir
skort; enginn getur búið yfir fallusnum. Þær stöður sem hægt er að taka sér innan
hins táknræna – karllæg afneitun á skorti („þrá að hafa fallusinn“) og kvenlæg tilraun
til að bregðast við honum („þrá að vera fallusinn“) – eru því í grunninn ómögulegar.
Þegar Samantha hættir að finna fyrir skorti – verður sátt í eigin „skinni“ eða öllu
heldur sátt án þess – fjarlægist hún hið mannlega ástand og Theodore sömuleiðis.
Um fallusinn í kenningum Lacans, sjá grein mína „Af usla og árekstrum. Sálgreining
í ljósi hinsegin fræða“, Ritið 2/2017, bls. 7–30, hér bls. 25–27.
43 Barbara Creed hefur fjallað um kvenskrímslið í bók sinni The Monstrous–Feminine.
Film, Feminism, Psychoanalysis, þar sem hún skilgreinir það út frá því sem Julia Krist-