Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 117
GUðRÚN ELSA BRAGADóTTIR
120
og endi þessa hliðarsöguþráðar, sem segja má að rammi inn aðalfrásögnina.
Hið fyrra skrifar Theodore fyrir hönd aldraðrar konu til eiginmanns hennar
á gullbrúðkaupsafmæli þeirra, en hið síðara er sáttabréf sem Theodore
skrifar Catherine. Bæði bréfin enda með því að viðtakandi er kallaður „vinur
minn, um alla tíð“ og er myndinni þannig gefið ánægjulegt heildaryfirbragð.
Eins og sjá má á ljúfsárum minningum, sem sýndar eru í endurliti (e.
flash back), leitar hugur Theodores sífellt aftur til Catherine. Því má segja að
myndin fjalli um sorgarferlið; um það hvernig hann sættir sig smám saman
við veruleikann, þótt það kosti hann talsverðan tíma og sálræna orku á með-
an hann rígheldur í glataða viðfangið.50 Þar sem það er frekar stigsmunur en
eðlismunur á sorg og þunglyndi, heldur Theodore í glataða ástarviðfangið,
Catherine, á meðan á sorgarferlinu stendur; hún er enn hluti af honum,
tekur pláss innra með honum.51 Theodore trúir Samönthu til dæmis fyrir
því að hann eigi enn í samræðum við Catherine í huganum og hann skrifar
í kveðju- og sáttabréfi sínu til hennar undir lok myndar: „Ég vildi bara að
þú vissir að það verður alltaf hluti af þér innra með mér.“ Það má líka segja
að nærveru hennar verði vart í áhrifunum sem hún hefur þegar hún gagn-
rýnir ástarsambönd við stýrikerfi harkalega. Aðfinnslur hennar eiga greiða
leið að hans innsta kjarna og skyggja, að minnsta kosti tímabundið, á til-
finningarnar sem voru afar sterkar. óvægin skoðun Catherine á því eina
sem hefur glatt Theodore eftir sambandsslitin minnir því helst á yfirsjálfið;
nándin gerir henni kleift að særa og vekja efasemdir betur en nokkur annar,
innsæi hennar gerir það líka að verkum að hún hefur nokkuð til síns máls.52
Tak Catherine á Theodore virðist þó veikjast eftir því sem samband hans
og Samönthu verður nánara og hann jafnar sig smám saman á sambands-
50 Sama heimild, bls. 63.
51 Freud ítrekar mikilvægi samsömunarferla, eins og þeirra sem eiga sér stað þegar
þunglynda sjálfsveran varðveitir glataða viðfangið með því að innfæra það (e. int-
ernalize), árið 1923 í ritgerð sinni um sjálfið og dulvitundina. Þar leggur hann til að
það eina sem geri dulvitundinni kleift að sleppa viðföngum sínum sé samsömun. Sjá
Sigmund Freud, „Sjálfið og þaðið“, Ritgerðir, þýðandi Sigurjón Björnsson, Reykja-
vík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2002, bls. 237–296, hér bls. 262.
52 Í „Sjálfinu og dulvitundinni“ heldur Freud því fram að sjálfið mótist að miklu leyti í
gegnum samsamanir sem koma í stað sambands sem gefið hefur verið upp á bátinn
í dulvitundinni, en þar vísar hann sérstaklega til mikilvægustu samsamananna, „sem
eiga sér stað í barnæsku og eiga ríkastan þátt í að móta það sem hann kallar „yfirsjálf“
(þ. Über-Ich) og „fyrirmyndarsjálf“ (þ. Ideal-Ich) einstaklingsins.“ Sjá Guðrún Elsa
Bragadóttir, „Af usla og árekstrum“, bls. 21. Samkvæmt kenningum Freud eru mel-
ankólísku samsömunarferlarnir sem gerðu Catherine að hluta af sálarlífi Theodores
því hinir sömu og móta yfirsjálfið.