Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Síða 139
SæUnn KJaRTanSDÓTTIR
142
Sálgreining og John Bowlby
Tengslakenning John Bowlbys (1907-1990) er ein af merkari kenningum sál-
greiningar á tuttugustu öldinni. Hún hefur haft gríðarleg áhrif innan félags-
ráðgjafar, sálarfræði, geðlæknisfræði og sálgreiningar. Fyrir utan Sigmund
Freud og Carl Gustav Jung er Bowlby líklega sá sálgreinir sem almenningur
þekkir helst. Það blés þó ekki byrlega fyrir honum framan af.
Áður en John Bowlby lagði fyrir sig læknisfræði hafði hann unnið í skóla
fyrir unglinga sem áttu við ýmiss konar erfiðleika og hegðunarvandamál að
etja. Sú reynsla átti eftir að hafa afgerandi áhrif á stefnu hans í lífinu því að
honum þótti ljóst að vandræði ungmennanna stæðu í samhengi við erfiðleika
og óhamingju á heimilum þeirra. Á meðan Bowlby var í læknanámi fór hann
í sálgreiningu til Joan Riviere, vinar og samstarfsmanns Melanie Klein, og
í framhaldi af því nam hann sálgreiningu. Hann útskrifaðist sem sálgreinir
1937 og hóf þá þjálfun í sálgreiningu barna undir handleiðslu Klein. Fljót-
lega kom upp togstreita á milli Bowlbys og Klein vegna þess að honum
fannst hún ekki gefa ytri aðstæðum nægilegt vægi. Sjálfur var hann sann-
færður um að umhverfið ætti stóran þátt í sálrænum erfiðleikum. Þegar hann
lauk námi í sálgreiningu barna árið 1940 mátti þegar sjá hvert hann stefndi
en lokaverkefni hans bar titilinn „Áhrif umhverfisins á mótun hugsýki og
skapgerðarveiklunar.“6 Þar heldur hann því fram fullum fetum að umhverfi
fyrstu áranna sé stór orsakavaldur þegar kemur að mótun persónuleikans,
sérstaklega hafi aðskilnaður frá móður mikil áhrif.
Þegar Bowlby gekk til liðs við bresku sálgreiningasamtökin var Sigmund
Freud nýlega fallinn frá. Samtökin minntu á fjölskyldu í uppnámi eftir fráfall
ættföðurins með erfðamálin óútkljáð. Þau voru auk þess klofin í herðar niður
með Melanie Klein á öðrum vængnum og Önnu Freud, dóttur Sigmunds, á
hinum. Kenningar Klein voru nýstárlegar og byltingarkenndar. Hún hafnaði
mörgum hugmynda Freuds og hélt því fram að takmark mannsins væri ekki
að fá útrás fyrir hvatir sínar heldur að tengjast annarri manneskju.7 Einnig
þótti henni ljóst að mikilvægasta manneskjan í lífi barnsins væri ekki faðirinn,
eins og Freud hafði haldið fram, heldur sú sem myndar fyrstu og nánustu
tengsl við barnið, sem er oftast móðirin. Jafnframt beindi hún kastljósinu frá
6 John Bowlby, „The influence of the environment in the development of neurosis
and neurotic character“, International Journal of Psychoanalysis 21/1940, bls. 145–
178.
7 Gott yfirlit kenninga Melanie Klein er að finna í Hanna Segal, Introduction to the
work of Melanie Klein, London: The Hogarth Press, 1986 og Julia Segal, Melanie
Klein, London: Sage Publications, 1992.