Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 143
SæUnn KJaRTanSDÓTTIR
146
skömmum aðskilnaði, hversu sár sem hann kann að vera. Áhrif aðskilnaðar
ráðast öðru fremur af tengslum móður og barns áður en til hans kemur. Því
meiri spenna sem er í sambandinu og því minna öryggi sem barn upplifir hjá
móður því háðara er það henni og höndlar verr aðskilnað frá henni. Börn
sem hafa misst móður sína, til dæmis vegna dauðsfalls, eru ekki líklegri en
önnur börn til að leiðast út í andfélagslega hegðun. Hins vegar eru börn í
aukinni áhættu ef mikil átök eru á heimilinu, foreldrar eru ófyrirsjáanlegir
og óaðgengilegir og sýna þeim litla athygli og umhyggju. Það er því ljóst að
tengsl foreldra og barna eru margslungin og fremur en að draga einfaldar
ályktanir um orsakir og afleiðingar þarf að greina eðli tengslanna.20
Kenningar Bowlbys um mikilvægi móður hafa vakið hörð viðbrögð með-
al femínista. Margir telja þær afturhaldssamar og hafa ásakað Bowlby um að
vilja binda konur inni á heimilunum.21 Það er rétt að hann er andvígur því
að börn yngri en þriggja ára séu að nauðsynjalausu aðskilin frá móður en á
hinn bóginn mætti segja að hann leggi sitt af mörkum til að gefa móðurhlut-
verkinu meiri sess. Hitt er mikilvægt að ítreka að þó að Bowlby hafi iðulega
talað um móður hefur tengslakenningin þróast í þá átt að líta svo á að fleiri
en líffræðileg móðir barnsins geti sinnt hefðbundnu hlutverki hennar. Oftast
er það líffræðileg móðir en hún hefur nokkuð forskot fram yfir aðra því hún
gengur með barnið og það má búast við að það sé henni hvatning til að
tengjast því. Þetta forskot nýtist ekki í öllum tilvikum og feður og fósturfor-
eldrar eru ekkert síður hæfir til að sinna hlutverki móðurinnar. aðalatriðið
er að manneskjan gefi sig að barninu af heilum hug og stilli sig inn á þarfir
þess.22
Þá telja sumir femínistar að Bowlby geri of mikið úr áhrifum aðskilnaðar
móður og barns.23 Fyrstu rannsóknir hans byggðu á börnum sem höfðu nán-
ast alveg farið á mis við umönnun móður og margir telja hæpið að alhæfa út
frá þeim niðurstöðum að allur aðskilnaður móður og barns fyrstu þrjú árin
sé skaðlegur barninu. Hvort Bowlby hafi haldið því fram skal hér látið liggja
milli hluta en hins vegar hafa fjölmörg dæmi sannað að það er barninu al-
gjörlega að meinlausu að móðir feli annarri manneskju umönnun þess hluta
20 Eðli tengsla foreldra og barns er greint með „Strange Situation“ sem vikið er að
síðar í greininni.
21 Sjá til dæmis nancy Chodorow, The Reproduction of Motherhood, Oakland: University
of California Press, 1978.
22 Sjá til dæmis Robert n. Emde og Marieanne Leuzinger-Bohleber (ritstjórar), Early
Parenting and Prevention of Disorder, London: Karnac Books, 2014.
23 Sjá til dæmis ann Oakley, Subject Women, Oxford: Blackwell Publishers, 1981.