Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 147
SæUnn KJaRTanSDÓTTIR
150
fáeinum mínútum liðnum kemur ókunnug manneskja inn í herbergið. Hún
spjallar lítillega við móðurina og barnið. Þessu næst fer móðirin út úr her-
berginu og skilur barnið eftir með ókunnugu manneskjunni. Eftir örfáar
mínútur kemur móðirin aftur inn í herbergið og ókunnuga manneskjan fer.
Þá fer móðirin fram og skilur barnið eitt eftir en ókunnuga manneskjan
kemur fljótlega. Loks kemur móðirin og ókunnuga manneskjan fer fram.
allt ferlið tekur tæpa hálfa klukkustund og er tekið upp á myndband.
Oft gráta börnin þegar móðir þeirra fer fram, elta hana og sýna önnur
einkenni vanlíðunar. Ókunnuga manneskjan reynir að hugga barnið eða
dreifa athygli þess með leik. Stundum tekst það að einhverju leyti og stund-
um alls ekki og þá er mamman kölluð til. Það eru hins vegar viðbrögð barns
við endurfundunum fremur en sjálfum aðskilnaðinum sem talin eru varpa
ljósi á formgerð tengslanna og á grundvelli þeirra hafa verið greind ferns
konar mynstur.34
Í fyrsta lagi eru örugg tengsl (e. secure attachment). Börn með slík tengsl
leita til móður sinnar bæði eftir fyrri og seinni aðskilnað frá henni. Þegar
hún fer kalla þau á hana, elta hana, leita að henni og mörg fara loks að gráta.
Þau bregðast glöð við að sjá hana aftur, teygja sig til hennar, vilja láta hana
hugga sig og leitast eftir líkamlegri nálægð. Stuttu síðar taka þau gleði sína á
ný og fara aftur að leika sér.
Í öðru lagi eru óörugg tengsl (e. insecure attachment) sem einkennast af
nándarfælnum tengslum (e. avoidant attachment). nándarfælin tengsl lýsa
sér með því að börnin sýna lítil mótmæli við aðskilnaði, þau hvorki elta
móðurina né gráta þegar hún fer. Yfirleitt halda þau áfram að leika sér þó að
stundum dragi úr áhuga þeirra eða ákafa. Börnin horfa gjarnan á eftir móður
sinni svo ljóst er að þau taka eftir að hún fer. Þegar hún kemur aftur láta þau
sem þau taki ekki eftir henni og leita ekki í fangið á henni. Oftast er líkamleg
snerting í lágmarki.
Í þriðja lagi eru einnig óörugg tengsl sem nefnast tvíbent tengsl (e. ambiva-
lent attachment) en börn með þau tengslamynstur sýna mest uppnám við að-
skilnað og gráta sárt. Þegar móðirin kemur aftur gengur henni illa að hugga
barnið og það er lengi að jafna sig. Stundum vilja börnin ekki leika sér á ný.
Þegar móðirin tekur barnið upp sýnir það þrá eftir atlotum en er á sama tíma
árásargjarnt (lemur, sparkar, ýtir henni í burtu eða snýr sér undan).
Fjórða og síðasta tengslamynstrið ruglingsleg tengsl (e. disorganised attach-
ment) var greint töluvert síðar en hin fyrri. Þau börn geta að hluta til fallið
34 Sjá til dæmis David J. wallin, Attachment in Psychotherapy, new York: The Guilford
Press, 2007, bls. 17–24.