Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 153
SæUnn KJaRTanSDÓTTIR
156
barna og fullorðinna. Fyrstu rannsóknir Bowlbys beindust að börnum sem
höfðu misst tengsl við mæður sínar, yfirleitt endanlega þegar tíðkaðist að
koma þeim fyrir á stofnunum, en smám saman beindist athyglin að marg-
breytileika samskipta foreldra og barna. Ein meginástæða þess hve ung börn
eru háð foreldrum sínum er að þeir hafa nánast lykil að líðan barnanna í
hendi sér. Ung börn geta ekki temprað líðan sína sjálf heldur þarfnast þau
manneskju sem getur dregið réttar ályktanir um þarfir þeirra og brugðist við
þeim á viðeigandi hátt. Þannig felst gildi tengsla ekki eingöngu í að vernda
börn fyrir utanaðkomandi hættu, eins og Bowlby lagði áherslu á, heldur er
í öruggum tengslum líðan barna tempruð jafnt og þétt. Þannig er streitu
þeirra haldið innan marka og þau læra að þekkja tilfinningar sínar og bregð-
ast við þeim á sama hátt og foreldrarnir gera. Í slíku andrúmslofti upplifa
börn nægilegt öryggi til að gleyma sér í leik og síðar námi og starfi.
Á síðustu áratugum hefur verið þróuð meðferð á grundvelli tengslakenn-
ingarinnar sem kallast tengslaeflandi meðferð (e. Parent Infant Psychotherapy).50
Viðfang hennar er tengslin á milli foreldra og barns á fyrsta ári og þess vegna
taka þau öll þátt í meðferðartímum. Ástæður meðferðar eru yfirleitt van-
líðan foreldra sem getur truflað örugga tengslamyndun. Vanlíðanin stafar af
ýmsum orsökum, svo sem erfiðri reynslu foreldra úr uppeldi, áföllum, þung-
lyndi, kvíða eða erfiðleikum í sambandi foreldra. Markmið meðferðar er að
stuðla að öruggri tengslamyndun á milli foreldra og barns, meðal annars
með því að draga úr vanlíðan foreldra og efla getu þeirra til að íhuga eigið
hugarástand, hugarástand barnsins og sambandið þar á milli. Barnið þarf að
sannreyna að það geti sýnt þarfir sínar og að foreldrarnir bregðist við á við-
eigandi hátt. Hér á landi hefur frá árinu 2008 verið veitt tengslaeflandi með-
ferð fyrir foreldra og ungbörn hjá Miðstöð foreldra og barna en frá árinu
2020 heyrir starfsemin undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og kallast
Geðheilsuteymi fjölskylduvernd.
John Bowlby leit á tilfinningalega vanrækslu barna sem mein sem græfi
undan samfélaginu. Ekki mætti gera lítið úr þörf barna fyrir foreldra sína
eða þörf okkar fyrir hvert annað, það væri beinlínis heilsueflandi að fólk
legði rækt við tengsl og tjáði vanlíðan, reiði og sorg þegar þau rofna. Hann
taldi það skyldu samfélagsins að bæta úr aðbúnaði barna með því að viður-
kenna vandann, draga lærdóm af sálarfræði og tryggja að þeir sem annast
börn fái menntun og þjálfun sem auki næmi þeirra fyrir tilfinningalegum
þörfum barna og foreldra þeirra. Því verki er hvergi nærri lokið.
50 Sjá til dæmis Tessa Baradon, C. Broughton, I. Gibbs, J. James, a. Joyce og J wood-
head, The Practice of Psychoanalytic Parent-Infant Psychotherapy. Claiming The Baby,
London: Routledge, 2005.