Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Side 170
DRaUMa-JÓI, RannSÓKn 3
249
lokum skýra frá nokkrum erlendum tilraunum, er gerðar hafa verið
við menn í dáleiðsluástandi.50
Hér notar Ágúst orðið „tilraunir“ um verklag erlendra aðila við að sanna
fyrirbæri eins og fjarskyggni, en í augum nútímamanna kann það að virka
sem ónákvæm lýsing. Kafli V, „Erlendar tilraunir“, er að mestu lagður undir
sögur þar sem einkennilegir atburðir tengdir fjarskyggni eiga sér stað, og
taldir fram ábyrgir vottar að þeim. Þannig er Ágúst ekki einn um að kalla
það tilraun sem yrði í dag öllu heldur kallað gagnaöflun. Hugtakið sönnun
getur í huga Ágústs þýtt að lagt hefur verið fram vottfest skjal áreiðanlegra
vitna sem þó eru ekki endilega beinir aðilar að sögunni. Ef sönnunin væri
ekki gild þýddi það að vottarnir væru ekki menn orða sinna.
Bréfaskrif
Í bréfi Drauma-Jóa til Ágústs H. Bjarnasonar sem sá síðarnefndi birti í
Lesbók Morgunblaðsins 1936,51 fæst innsýn í líf hans á efri árum á Þórshöfn.
Hann segist vera betri til heilsunnar en þegar þeir Ágúst gerðu tilraunina á
Vopnafirði, og að minni hans sé ágætt hvað varðar æskuna. Viðvíkjandi fé-
lagslíf sitt segir hann: „[…] og er mér óhætt að fullyrða, að allir Þórshafnar-
búar sjeu vinir mínir og kunningjar, sem rífast um að gefa mjer að borða, og
hafa mig með á flestum tyllidögum.“52 Lýsingin kallast á við að þegar hann
lést átta árum síðar kom dánartilkynning á baksíðu Morgunblaðsins þar sem
segir að heiðursborgari Sauðnesshrepps Jóhannes Jónsson, sé látinn, 83 ára
að aldri.53 Í áttræðisafmæli hans flutti hreppstjórinn Halldór Benediktsson á
50 Sama rit, bls. 205.
51 Ágúst H. Bjarnason, „Skemtilegt sendibrjef frá DRaUMa-JÓa“, Lesbók Morgun-
blaðsins, 19. júlí 1936, bls. 228–229. Í bréfinu sem er gert með hjálp ritara, segir: „Oft
hefi jeg óskað þess, að mjer hefði verið kennt að draga vel til stafs í stað þess að láta
mig þylja langa kverið án þess að mega anda, spjaldanna á millum. […] Brjefritari
minn liggur í rúminu, þegar hann skrifar þetta, með töluverðum hita, og biður hann
afsökunar á setningaskipun og zetunum, og þar sem aflaga fer móðurmálið.“
52 Sama rit, bls. 228.
53 „Drauma-Jói látinn“, Morgunblaðið, 7. nóv. 1944, bls. 12. Í dánartilkynningunni
er sagt frá að Ágúst H. Bjarnason hafi rannsakað Drauma-Jóa fyrir Breska Sálar-
rannsóknarfélagið, en ranglega fullyrt að athyglisverðustu draumar hans hafi tengst
njálssögu. Þar er honum ruglað saman við Hermann Jónasson, búfræðing og al-
þingismann (1858–1923), sem skrifaði meðal annars bækur um drauma og dul-
ræn efni. njáludraumur Hermanns kemur fyrir í: Hermann Jónasson, Draumar,
erindi flutt í Reykjavík í febrúar 1912, Ísafoldarprentsmiðjan, Reykjavík, 1912, bls.
40–90. Í bók Hermanns, Dulrúnir má finna tvo drauma sem eru af sama tagi og