Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2021, Page 186
Sigmund Freud
Neitun
Sitthvað má af því leiða hvernig sjúklingar okkar segja frá hugdettum sínum
í sálgreiningartímum.1 „Nú haldið þér að ég ætli að fara að segja eitthvað
móðgandi, en mér er svo sannarlega ekkert slíkt í huga“. Við áttum okkur á
að þetta er höfnun í formi frávarps á hugsun sem nú hefur skotið upp kolli.
Eða: „Þér eruð að spyrja um hver þetta geti verið í draumnum. Það er ekki
mamma“. Við leiðréttum: „Svo að það er þá mamma hans“. Við tökum okkur
það bessaleyfi að sniðganga neitunina og nota einungis efnislega merkingu
hugrenningartengslanna. Það er eins og sjúklingurinn hefði sagt: „Það er
alveg rétt, mér datt mamma í hug þegar ég fór að hugsa um þessa mann-
eskju, en ég kæri mig ekki um að láta þá hugsun gilda“.2
Stundum er hægt með afar handhægri aðferð að afla sér þeirrar vitn-
eskju sem þarf um bælt dulvitað efni. „Hvað“, spyrjum við, „þætti yður allra
ólíklegast í þessum aðstæðum? Hvað haldið þér að þér hefðuð síst af öllu
hugsað?“ Ef sjúklingurinn lætur veiðast í gildruna og segir hvað honum
finnist ósennilegast, hefur rétta játningin oftast nær fengist. Skemmtilega
gagnstæðu við þessa tilraun er oft að fá hjá áráttusjúklingi sem er búinn að fá
nokkra fræðslu um merkingu sjúkdómseinkenna sinna. „Ég er kominn með
1 [Þessi ritgerð var skrifuð í júlímánuði 1924 en hún birtist fyrst á prenti árið 1925
undir heitinu „Die Verneinung“ í tímaritinu Imago 11 (3), bls. 217–221. Hún geymir
tvö megin efnisatriði. Upphaf hennar og endir eru tæknilegs eðlis, það er útskýring
á „neitun“ sjúklings, hvernig beri að skilja hana og komast að merkingu hennar í
meðferðinni. Að öðru leyti er efnið metasálfræðilegs eðlis og fjallar um upptök og
hlutverk hugsunar (dómgreindar). Þar er haldið áfram umræðuefni úr ritgerðunum
„Formulierungen über die zwei Prinzipien des psychischen Geschehens“ (1911) og
„Metapsychologische Ergänzung der Traumlehre“ (1917). – Þýðandi.]
2 [Áður hafði Freud meðal annars vakið athygli á þessu í sjúkrasögu sinni af „Rottu-
manninum“ („Bemerkungen über einen Fall von Zwangsneurose“, 1909). – Þýð-
andi.]
Ritið
1. tbl. 21. árg. 2021 (157-162)
Þýðing
© 2021 Ritið, tímarit Hug vísinda stofnunar
og höfundur greinarinnar
Útgefandi:
Hugvísinda stofnun Háskóla Íslands,
Sæmundargötu 2, 102 Reykjavík
Birtist á vefnum http://www.ritid.hi.is.
Tengiliður: ritið@hi.is
DOI: 10.33112/ritid.21.1.9
Birt samkvæmt skilmálum
Creative Commons BY (4.0).